“Það borgar sig að vera tortrygginn”
Unnur Rán Reynisdóttir, alltaf kölluð Rán, er 31 árs hársnyrtimeistari sem rekur umhverfis- og mannvæna hársnyrtistofu, á Óðinsgötu 7 í Reykjavík, sem heitir Feima.
Telja má Rán til brautryðjanda á Íslandi hvað varðar græna hársnyrtingu og því ekki úr vegi að leita til hennar með nokkrar spurningar.
Hvað þýðir græn hársnyrting?
Græn hársnyrting snýst um að vernda fagfólk, viðskiptavini og náttúruna gegn skaðlegum áhrifum hársnyrtifagsins. Við forðumst ákveðin skaðleg efni, endurvinnum, hugsum um hvernig við notum raforku, komum okkur til og frá vinnu og svo framvegis. Þetta hófst í Danmörku hjá konu, Anne-Sophie Villumsen, sem var að hrökklast úr faginu vegna ofnæmis en sætti sig ekki við það. Anne-Sophie leitaði til efnaverkfræðings til að fara yfir hársnyrtiefni með henni til að leita leiða til að haldast lengur í starfi. Síðan eru liðin um 15 ár og Anne-Sophie starfar enn í faginu, rekur keðju Grænna stofa í Danmörku og framleiðir sínar eigin hársnyrtivörur, á Zenz stofurnar og syrtivörumerkið Zenz Organic Products. Hjá henni starfa margir sem ekki geta starfað á venjulegum hársnyrtistofum vegna ofnæmis.
Hvernig er starfsemi “Grænna stofa” frábrugðin hefðbundnum hársnyrtistofum?
Á grænum stofum notum við ekki hefðbundna háraliti, litirnir sem við notum virka á töluvert annan máta en venjulegir litir, svo þegar skipt er í grænt þarf að endurmennta sig töluvert í litunum.
Við þurfum alltaf að fylgjast vel með hvað er nýtt í rannsóknum á innihaldsefnum hársnyrtivara og ef verið er að reyna að selja okkur nýjar vörur könnum við ávallt innihald þeirra. Besta ráðið sem ég fékk frá efnafræðingi á námskeiði í Danmörku var að treysta aldrei á neinn nema sjálfa mig í þessum efnum. Það er alltaf verið að reyna að selja okkur hin ýmsu undraefni sem eru án þessa og hins, auglýst náttúruleg, lífræn og ég veit ekki hvað en ég þarf alltaf að sannreyna þetta sjálf áður en ég kaupi vöruna. Yfirleitt standast þessar vörur ekki skoðun. Svo ætli það sé ekki partur af þessu að vera svolítið tortryggin.
Í reglum grænna stofa stendur einnig að allir starfsmenn þurfi að vera vakandi fyrir ofnæmi hjá viðskiptavinum og sjálfum sér, sem og ofnæmisvöldum í efnum. Einnig þurfa veitingar að vera lífrænar og hreingerningarefni umhverfismerkt.
Lýsandi litur má ekki komast í snertingu við húð, við sumsé aflitum ekki hár til dæmis en getum lýst það með strípum. Við notum einungis oxandi festi í strípur. Aðrir litir okkar virka á mjólkursýrum eða jurtir blandaðar heitu vatni en ekki peroxíði.
Þetta er svona helsti munurinn. Svo má bæta því við að Grænar stofur setja heilsu, umhverfi, vistvænt og sjálfbærni í forgang. Við vinnum efitr lista Grøn Salon um leyfð hársnyrtiefni, þau efni innihalda ekki heilsu- og umhverfisskaðleg efni. Einnig notum við bannlista Grøn Salon um efni sem hársnyrtivörur mega ekki innihalda. Grænar stofur bjóða upp á heilbrigðara vinnuumhverfi og bætta þekkingu um efnin í hársnyrtivörunum.
Hvers vegna græn hársnyrting?
Til að byrja með þá myndi ég segja til að forðast öll verstu efnin sem hársnyrtiefni hafa upp á að bjóða. Ofnæmis- og krabbameinsvaldandi efni, hormónabreytandi efni, efni sem hafa slæm áhrif á lífríkið þegar þau skolast út með vatninu.
Ég vil að mér, samstarfsfólki mínu og viðskiptavinum geti liðið vel á stofunni og minnka líkur á því að fólk fái ofnæmi þegar það litar á sér hárið.
Einnig vil ég leita leiða til að fyrirtækið mitt hafi sem minnst umhverfisáhrif.
Við höfum starfað eftir reglum Grøn Salon kerfisins danska frá 2011 en byrjuðum aðlögunina árið 2008. Ég hef rekið stofuna síðan 2003. Við leggjum áherslu á sjálfbærni, heilbrigt vinnuumhverfi og heilbrigði viðskiptavina okkar
Hvað vakti áhuga þinn á grænni hársnyrtingu?
Persónulega datt mér bara í hug einn daginn að það hlytu að vera til skárri efni en ég var að vinna með. Ég hef ekki fundið fyrir ofnæmi sjálf en fann þó að sum efnin höfðu slæm áhrif á astma hjá mér.
Hugsunin mín beindist bæði að því að ég vildi vinna með heilsusamlegri efni og efni sem færu betur með umhverfið.
Þannig að ég byrjaði á því að googla og fann til að byrja með fullt af hlutum sem reyndust ekki á rökum reistir, það er að segja hársnyrtiefni sem gera út á að vera náttúruleg og góð en eru í raun bara venjuleg hársnyrtiefni. Þá datt ég niður á síðu Grön Salon og hafði samband við efnaverkfræðing þeirra sem hefur verið mjög hjálplegur. Stuttu síðar kom hann og hélt námskeið hérlendis þar sem ég fékk smávægilegt sjokk við að læra meira um efnin í vörunum. Þá, árið 2008, byrjaði ég að feta mig í átt að grænni stofu og var farin að vinna alfarið eftir þessu kerfi 2011.
Eru margir í þessu fagi á Íslandi og er græn hársnyrting algeng erlendis?
Ég held að stofan mín sé eina stofan á landinu sem vinnur algjörlega eftir Grön Salon kerfinu. En þar sem ekkert vottunarkerfi er komið á Íslandi vil ég ekki vera að fullyrða það. Ég held það séu svona sirka 15-40 stofur í hverju landi (Noregur, Danmörk, Svíþjóð). Danir eru leiðandi í rannsóknum og vinnuumhverfi almennt á þessu sviði.
Er algengt að fólk hafi ofnæmi fyrir eða fái exem vegna efnanna sem notuð eru á hefðbundum hársnyrtistofum, svo sem við litun?
Það er algengara en ég hafði haldið áður en ég byrjaði með græna stofu. Nú fáum við töluvert marga viðskiptavini sem hafa ekki getað litað á sér hárið í langan tíma en geta nú litað það. Einnig höfum við fengið góð viðbrögð frá fólki með hársvarðarvandamál við Svans-vottuðu sjampóunum og næringunum frá Zenz sem við seljum.
Þetta er hins vegar algengt vandamál í stéttinni. Samkvæmt rannsóknum eru hársnyrtar í mikið meiri hættu á að fá húðvandamál tengd vinnu sinni miðað við aðrar starfsgreinar.
Rúmlega 40% hársnyrta fá exem á hendur.
Rannsóknir hafa sýnt að 23% þeirra sem hætta í faginu hætta vegna exems á höndum, 18% vegna ofnæmis og 6% vegna astma. Þetta eru allt ástæður sem rekja má beint til efnanna sem við vinnum með.
Videncenter for Allergi á Gentofte sjúkrahúsinu í Danmörku hefur gert rannsóknir á hversu algengt er að fólk hafi ofnæmi fyrir háralitum. Rannsókn frá árinu 2003 benti til að 5,3% þeirra sem höfðu litað á sér hárið fengu ofnæmi. Úrtakið var 4000 manns, 18,4% af karlmönnum og 74,9% kvenna í úrtakinu höfðu litað hárið.
Önnur rannsókn þeirra frá 2010 benti til þess að 10% þeirra sem litað höfðu hárið fengu roða, kláða eða hrúður eftir háralit. 2,9% fengu þrota í andlit.
Ég hef ekki íslenskar tölur en læknar í Danmörku fá árlega um 250 tilfelli út af ofnæmi fyrir háralitum. Það má þó ætla að mun fleiri sýni viðbrögð við litunum því upplifun allra í faginu er að það þurfi yfirleitt mjög mikið til að fólk leiti til læknis. Margir bíta all svakalega á jaxlinn til þess að lita hár sitt.
Eru viðskiptavinir þínir flestir fólk sem hefur ofnæmi? Hvernig lýsir það ofnæmi sér?
Nei, ég segi kannski ekki að þeir séu flestir með ofnæmi en þó ansi margir. Ofnæmið lýsir sér margvíslega en eins og ég sagði áðan; roði, kláði, hrúður, þroti. Ég mæli með að fólk kíki á vefsíðu Videncenter for allergi. Sumir þola hreinlega ekki að koma inn á venjulega hársnyrtistofu, þó þeir séu ekki að nota nein efni sjálfir.
Er þetta umhverfisvænna en hefðbundin efni?
Já, það er einnig partur af þessu þema. Að forðast efni sem hafa slæm áhrif á lífríkið. Veitingar séu lífrænar, hreinsiefni umhverfisvottuð og svo að stuðla að umhverfisvænum venjum, t.d. spara rafmagn, pappír, umhverfisvænar samgöngur og fleira.
Hvaða efni eru notuð í staðinn? Næst sami árangur með grænni hársnyrtingu, til dæmis við litun og strípur? Er hægt að gera allt það sama og á hefðbundnum hárgreiðslustofum, svo sem við aflitun og litun?
Að ótrúlega miklu leyti náum við sama árangri og með venjulegum hársnyrtiefnum. Undantekningin er aðallega sú að við setjum ekki permanent, aðeins erfiðara er að lýsa hár sem hefur verið dekkt en að lýsa ólitað.Við notum aldrei lýsandi lit beint á húð en við getum lýst með strípum. Það getur líka verið aðeins erfiðara að dekkja hár sem hefur verið lýst mjög mikið, þannig að hárið heldur illa lit.
Kaupir fólk af þér vörur til að fara með heim eða er orðið almennt og algengt að hægt sé að fá hársnyrtivörur sem eru í lagi fyrir fólk með ofnæmi?
Fólk kaupir mikið af okkur sjampó, næringar og mótunarefni. Þau hafa gefið góða raun, bæði eru þau góð fyrir húð og hár. Það hefur verið einhver misskilningur í gangi með að heilsusamlegri vörur virki ekki nógu vel en ég sakna einskis frá því ég var með hefðbundna hárnsyrtistofu. Einnig er hægt að versla af okkur hreina jurtaliti en aðrar litanir þarf að fá frá fagmanni.Einhverjar vörur er hægt að fá í almennum verslunum og heilsubúðum. Ég mæli þó með því að lesa vel innihaldslýsingar á vörum áður en þær eru keyptar.
Eru aðferðirnar sem þú notar þær sömu eða aðrar? Tekur það lengri tíma fyrir viðskiptavininn?
Aðferðirnar eru ekki mjög frábrugðnar hefðbundnum aðferðum. Við klippum reyndar áður en við litum. Því þó svo að hár hafi verið rækilega vel þvegið eftir lit sitja efni alltaf eftir og við viljum minnka snertingu við efnin, þrátt fyrir að við séum að nota heilsusamlegri efni en gengur og gerist. Sem dæmi má nefna að börn hafa fengi ofnæmi við að snerta hár mæðra sinna sem hefur verið ný litað. Þetta er eftir hefðbundinn hárlit sem inniheldur PPD (p-Phenylenediamine).
Litirnir virka aðeins öðruvísi svo við blöndum þá til dæmis. ekki við festi. Við þurfum mikið að blanda saman litum og nota litafræðina okkar, sem er afskaplega skemmtilegt.
Tímalega séð tekur þetta svipað langan tíma og að fara á venjulega stofu. Nema jurtalitanir geta tekið mjög langan tíma, það fer þó eftir því hversu mikil breyting á að eiga sér stað.
Er dýrara fyrir viðskiptavininn að kaupa þjónustu af grænum stofum? Endist liturinn jafn lengi?
Ég held það sé bara svipað dýrt og gengur og gerist á öðrum stofum. Liturinn endist yfirleitt jafn lengi. Hann vex úr en dofnar yfirleitt aðeins, heldur þó miklum glans svo skilin verða ekki alveg jafn skýr. Því segja margir viðskiptavinir mínir að þeim finnst þeir komast upp með að lita hárið aðeins sjaldnar en ella.
Hvaða efni, sem notuð eru á hefðbundnum hársnyrtistofum, eru algengir ofnæmisvakar?
toluene-2,5-Diamine
resorcinol
aminophenol
1-naphthol
4-amino-2-hydroxytoluene
p-Phenylenediamine
4-amino-3-nitrophenol
paraben
Virkar edik vel sem festir í hárlitun? Alveg jafn vel og hefðbundinn festir sem oftast er notaður?
Eplaedikið er ekki beint festir og þó. Það kemur réttu ph gildi á hárið og hársvörðinn sem lætur litinn festast betur. Það framkvæmir hins vegar ekki það sem peroxíðið gerir fyrir venjulegan lit. Mjólkursýrur sjá um það í einni tegund lita sem við notum og hin tegundin eru jurtir sem byrja að virka í heitu vatni, tei eða kaffi.
Edikið hins vegar er undursamlegt efni sem gefur hárinu glans ég mæli hiklaust með að nota. 3 hlutar af vatni:1 af ediki yfir hárið þegar búið er að skola sjampóið úr, bíður í 3-5 min og skolað vel úr. Næring á eftir sé þess óskað.
Rán útskrifaðist frá Iðnskólanum 2003, tók sveinspróf snemma árs 2004 og lauk svo meistaraprófi í desember 2004. Hún hefur tekið námskeið í Danmörku varðandi Græna hársnyrtingu og setið þing Norrænu stéttafélaganna hérlendis og í Noregi. Þar er mikið fjallað um Græna hársnyrtingu og vinnuumhverfi almennt.