Hún útskrifaðist frá vöruhönnunardeild og útskriftarverkefnið hennar var flothetta sem gerir fólki kleift að fljóta áhyggjulaust í vatni. Nú er hægt að fara í það sem kallast samflot í Seltjarnarneslauginni og víðar þar sem fólk hittist og flýtur saman.
Baðmenning Íslendinga
Unnur Valdís hefur alltaf haft unun að því að fara í sund og vera í vatni og hafði því áhuga á að vinna með baðmenningu okkar Íslendinga í lokaverkefni sínu. „Sundferðir skipa stóran sess í lífi mjög margra á Íslandi, bæði félagslegan og heilsufarslegan, en ég var frekar ósátt við þróunina á baðmenningunni yfirhöfuð, þ.e. fannst hún vera of einslit. Flestar sundlaugar eru orðnar að hálfgerðum skemmtigörðum þar sem keppst er við að hafa stærri og fleiri rennibrautir, sem er jú gaman fyrir krakkana, en það er óþarfi að setja allan fókusinn á það,“ segir Unnur og heldur áfram: „Ef við skoðum hvað aðrar þjóðir gera á þessu sviði, eins og t.d. Ungverjar og Japanar, þá er mikið um heilsulindir og baðhús þar sem það er nokkurs konar serimónía, eða jafnvel æðri athöfn, að baða sig. Ég vildi því skoða hvað hægt væri að gera hér heima þar sem meiri áhersla væri lögð á slökun.“
Jákvæð áhrif á heilsuna
Í rannsóknarvinnu sinni komst Unnur Valdís að því að það er mun meira en góð slökun sem flotið gerir fyrir líkamann. Fjöldi rannsókna hefur sýnt fram á ágæti þess að láta líkamann fljóta í vatni og hafa verið skrifaðar bækur um það. Sú þekktasta heitir The Book of Floating og er eftir Michael Hutchinson. Þar kemur fram að þegar líkaminn flýtur verður hann þyngdarlaus og við það að losna við áhrif þyngdaraflsins minnkar álagið á miðtaugakerfið, vöðvana og mænuna. Við það losnar úr læðingi orka sem eykur virkni heilans um leið og endurnýjun frumna líkamans verður hraðari. Ein klukkustund á floti jafngildir þannig um það bil fjögurra klukkustunda svefni. Þetta sést einnig þegar heilabylgjur eru skoðaðar. Þegar við erum við það að sofna fer heilinn í ástand sem kallast þeta. Það er slökunarástand þar sem heilinn tengist sterkar undirmeðvitundinni og ýmiss konar úrvinnsla fer í gang. Hægt er að ná þessu ástandi í hugleiðslu en oftast eftir margra ára þjálfun. Flotið örvar aftur á móti mjög fljótt þessar heilabylgjur. Þetta getur m.a. haft mjög góð áhrif á þá sem eru í skapandi vinnu. Rannsóknir hafa einnig sýnt að flotið eykur tenginguna á milli hægri og vinstri heilahvela.
Grein fengin af vef ibn.is