Að endurskapa fortíð sem er ekki til
Fyrir tuttugu og fimm árum fór ég með góðum félögum mínum í Kripalu-jóga í Bandaríkjunum. Námskeiðið var minnisstætt fyrir margra hluta sakir, ekki síst fyrir það hversu kalt var um þetta leyti árs, jafnvel fyrir harðsoðna íslenska karlmenn eins og okkur. Á hverjum morgni fórum við í kraftmikinn göngutúr út að hliði landareignarinnar og til baka, inn í hugleiðslusalinn þar sem morgunæfingarnar fóru fram.
Um daginn rakst ég á þessa tvo félaga mína í líkamsrækt og þar urðu miklir fagnaðarfundir. Eftir stutt spjall minntist annar þeirra á þá staðreynd að tuttugu og fimm ár væru liðin frá dvölinni á Kripalu-setrinu.
Og hann bætti við:
– Strákar, munið þið hvað var kalt?
– Já, sögðum við, því það var vissulega satt.
– Einu hef ég lengi velt fyrir mér, sagði hann. Á morgnana, þegar við vorum að ganga fyrir morgunhugleiðsluna ... af hverju gengum við svona rösklega?
– Ef við hefðum ekki gengið svona hratt þarna um árið, sagði ég, þá hefðum við ekki náð hingað, núna. Þá hefðum við ekki hist hér.