Er lífið ekki nógu stór gjöf?
Skortdýrið í mér sjálfum er mjög öflugt en ég er farinn að þekkja það nægilega vel til að það liggi í dvala. Stundum þarf ég sérstaklega sterka umgjörð utan um velsæld mína til að halda mér í ljósinu og halda skortdýrinu í skefjum.
Þegar ég fell í pytt sjálfsvorkunnar fer í gang algerlega sjálfvirk kvörtunarvél sem sér bletti á öllum heimsins fyrirbærum og annmarka á sjálfum mér og fólki í kringum mig. Ég verð kaldhæðinn (því kaldhæðni er kvörtun hugleysingjans), finn veika bletti á fólki og pota í þá. Allt er þetta auðvitað gert til að breiða yfir mína eigin sjálfsvorkunn, mína eigin hugmynd um að ég sé ekki nógu þetta og nógu hitt – og að konan sé nú svona og svona og börnin svona og svona og vinnufélagarnir hinsegin og þannig og svo framvegis.
Vélin fer af stað. Skortdýrið fær blóðbragð í munninn og eflist strax um allan helming, því það veit af fenginni reynslu að þegar það fær að leika lausum hala í svolítinn tíma getur það tekið öll völd.
Sem betur fer man ég eftir þakklætinu á svona stundum – ég man að þakklæti er val og viljandi ákvörðun um að beina athyglinni á vissar hliðar lífsins umfram aðrar.
Og staðreyndin er sú, að við sem lifum (langflest) allsnægtalífi ættum að geta fyllt út í margra blaðsíðna lista yfir hluti og staðreyndir til að vera þakklát fyrir. Á hverjum einasta degi.
Ég þarf ekki langan lista til að finna þakklætið. Hann er svona:
„Ég er þakklátur fyrir að draga andann. Ég er þakklátur fyrir heilsu mína. Ég er þakklátur fyrir konuna, börnin og fjölskylduna.“