Hlaupum við ekki á sömu veggina, aftur og aftur? Að minnsta kosti er það reynsla mín eftir að hafa unnið með fólki af öllum stærðum og gerðum, á öllum aldri og báðum kynjum – við hlaupum á veggi sem við vitum að eru fyrir framan okkur, við hlaupum á þá nokkurn veginn á nákvæmlega sama hátt og síðast; við búumst við nýrri niðurstöðu í þetta skiptið og verðum fyrir vonbrigðum þegar veggurinn er ennþá á sínum stað. Í sumum fræðum er þetta skilgreiningin á geðveiki – að gera sama hlutinn aftur og aftur en búast við nýjum niðurstöðum.
Og alltaf verður það sárara eftir því sem árin líða; alltaf verður svöðusárið á enninu aumara og aumara og sífellt hljómar hærra og hærra röddin innra með okkur sem öskrar:
„Af hverju geturðu ekki vitað betur? Af hverju lærirðu ekki af reynslunni!?“
Svarið er einfalt: Þú lærir ekki af reynslunni af því að þú vilt það ekki. Eða, orðum þetta örlítið nákvæmar: Skortdýrið sem stýrir hegðun þinni vill það ekki. Bara alls ekki. Lífið stjórnast af höfðinu og hugsuninni en ekki hjartanu – hjartað veit alltaf betur, en forræði hugans er algert þangað til þú opnar fyrir ljósið í hjartanu.
Viðjar vanans sem við höfum skapað til að viðhalda skorti og þjáningu eru sterkar – þær eru holan í gangstéttinni sem við höfum vitað af í mörg ár en ekki haft kraftinn til að sniðganga. Ljóðið um holuna í gangstéttinni talar til allra þeirra sem hafa þorað að kíkja inn í sjálfa sig; þorað að líta í eigin barm og horfast í augu við þann yndislega sannleika sem þar býr. Fyrri hluti ljóðsins tekur á sviðum sem við erum þegar búin að fjalla um – blekkingu og ábyrgð. Síðari hluti þess fjallar um athyglina – að veita athyglinni athygli og vera nógu fullur af ást til að vilja grípa sig glóðvolgan.
Það er innsæi – að vera í fullri virkni þegar hjartað sér og skynjar. Að vera vitni og fylgjast með sér – ekki til að standa sig að verki og hengja sig upp til refsingar, heldur vegna þess að athyglin á sér alltaf stað í núinu og þar er ljósið og kærleikann alltaf að finna.