Í síðustu æfingu lokaðir þú augunum, sást fyrir þér eldhúsið og breyttir því eftir eigin höfði. Nú er komið að því að skoða eigið líf á sömu forsendum og breyta því í huganum, ef þú vilt. Það er jafn auðvelt að breyta eigin lífi og að skipta um eldhúsinnréttingu eða mála eldhúsveggina í nýjum litum. Breytingin hefst innra með þér – um leið og þú sérð hana fyrir þér. Breytingin hefst þegar þú finnur neistann og kveikir í þér, kveikir ljósið á sýninni og sérð hvað þú vilt vilja til þín.
Lokaðu augunum í góðu næði. Hafðu blað og penna við höndina. Taktu fyrir afmörkuð svið lífs þíns, t.d. ástarlíf, vinnu, menntun eða heilsu. Hvaða leiðir lýsast upp þegar þú dregur djúpt andann og leyfir þér að nota ástríðuna sem streymir frá tilgangi þínum? Hvað sérðu fyrir þér?
Það er mikilvægt að skrá eigin sýn niður. Mjög sterk leið er að skapa sýndarspjald með myndum sem lýsa sýninni myndrænt, styðja hana og eðli hennar. Sýndarspjald er hægt að útbúa sem opnu í stórri glósubók, sem skjal í tölvunni eða sem spjald á vegg. Spjaldið skilar mestum árangri ef það er sýnilegt á hverjum degi – því að allt sem þú veitir athygli vex og dafnar.
Við getum klippt myndirnar úr blöðum, fundið þær á netinu eða jafnvel teiknað þær sjálf. Sýndarspjaldið getur innihaldið hluti sem okkur langar í, aðstæður sem við viljum skapa og fólk sem okkur langar að umgangast eða bæta sambandið við. Á sýndarspjaldinu sérð þú með skýrum hætti allt sem þú stefnir að. Gefðu þér frelsi til að leika þér með eigin sýn. Farðu inn í þessa æfingu með heitum kærleika, því að þitt eigið líf er þín eigin smíð.