Fara í efni

Að telja blessanir en ekki bölið - hugleiðing Guðna í dag

Að telja blessanir en ekki bölið - hugleiðing Guðna í dag

Að telja blessanir sínar

Máttur athygli og trúar hefur margoft verið sannaður. Nýverið voru við sálfræðideild Harvard-háskóla rannsakaðar 84 konur sem allar unnu erfiðisvinnu sem hótelþernur á sjö hótelum. Samkvæmt forrannsóknum leit engin kvennanna svo á að hún stundaði líkamsrækt eða virkan lífsstíl.

Konunum var skipt í tvo hópa. Fyrri hópurinn var upplýstur um það í smáatriðum hvaða líkamlegu áhrif vinnan hefði – hvað hvert verk gerði fyrir tiltekna vöðva líkamans og hversu mörgum hitaeiningum var varið. Konunum var einnig tjáð að sú hreyfing sem þær framkvæmdu í vinnunni nægði til að mæta skilgreiningum landlæknis um virkan og heilbrigðan lífsstíl. Á meðan rannsóknin stóð yfir voru þessar upplýsingar hafðar sýnilegar allan vinnudaginn þannig að konurnar í hópnum voru mjög upplýstar um áhrifin.

Samanburðarhópurinn fékk engar sérstakar leiðbeiningar.

Að rannsókn lokinni kom í ljós að fyrri hópurinn hafði náð umtalsvert betri líkamlegri heilsu á öllum sviðum sem mæld höfðu verið (þyngd, fitustuðull, líkamsfita, mittismál og blóðþrýstingur).

Það eina sem breyttist hjá fyrri hópnum var stöðug vitneskja um heilnæmi daglegra athafna. Athyglin beindist ekki að vinnunni sem áþján heldur þeim tækifærum til að sinna líkamanum sem fólust í daglegum störfum.

Þær töldu blessanir sínar, en ekki bölið.

Allt sem við veitum athygli vex og dafnar. Við vitum að hvort sem við veitum því athygli sem við viljum eða viljum ekki þá dafnar það með sama hætti. Viljinn stýrir athyglinni og beinir ljósinu þangað sem hann vill. Lykillinn hér er að velja að veita þakk­ lætinu athygli, næra það og rækta eins og hvert annað blóm, svo það vaxi og dafni og gefi frá sér ilm; velja að veita ekki illgresinu og skortinum athygli.

Þegar ég byrja daginn á því viðhorfi að ætla mér að finna fyrir velsæld, ást og allsnægtum, t.d. með því að horfa á fjölskyldu mína, maka eða börn og íhuga fyrir hvað ég er þakklátur ... þá verður niðurstaðan án nokkurs vafa önnur en þegar ég einblíni á það sem skortir.

Þakklæti er val og þegar þú velur að vera í hugarástandi þakklætis og ferð að telja blessanir þínar frekar en bölið, þá fjölgar þessum bless- unum jafn óðfluga og bölið minnkar. Þú getur æft þig að þakka fyrir, t.d. með því að hugsa um og skrá niður allt sem þú hefur ástæðu til að vera þakklátur fyrir. Smám saman eykur þú þannig umfang þakklætisins. Þegar þú tengir þakklætið tilfinningalega þá fyrst öðlast þakklætið mátt.

Við þökkum fyrir allt sem ástæða er til að þakka fyrir; við þökkum fyrir blessanir okkar og allt það sem við skynjum að er gott í okkar lífi. Við þökkum og þökkum og þökkum fyrir þessa hluti – en eftir ákveðinn tíma veljum við að þakka fyrir annað.

Við veljum líka að þakka fyrir „bölvanirnar“ – það sem okkur hefur þótt slæmt í eigin lífi.

Og þá erum við komin á staðinn þar sem allt á tilverurétt; þar sem engan dóm þarf að fella:

Staðinn þar sem allt er blessun.

Þar sem allt er eins og það á að vera – þar sem blessun og böl renna saman. Þar sem blessun og böl sameinast í einu blindandi ljóshafi.

Staðinn þar sem allt er blessun. Staðinn þar sem við erum uppljómuð.