Mataræði sem inniheldur mikinn sykur, hvítt hveiti, ger og mjólkurvörur hefur þau áhrif á líkamann að hann fyllist skyndilega af orku – hann sveiflast upp á við og titrar þar í skamman tíma.
En vegna þess hve fljótur hann er að vinna úr þessari orku líður ekki á löngu þar til fallið niður á við hefst. Og það er oftast töluvert hátt. Sveiflan upp á við fer með okkur langt upp fyrir eðlilega orkuþörf líkamans og á endanum gildir þyngdarlögmálið – það sem svífur hátt upp í loft fellur niður á meiri hraða en það sem flýgur lágflug. Og það fellur lengra. Þá upplifum við það sem við köllum blóðsykurfall, sem er óþægileg máttleysistilfinning og vægur svimi.
Við viljum (auðvitað) ekki upplifa óþægilegar tilfinningar þannig að við rjúkum til og fáum okkur í gogginn – fáum okkur eitthvað sem keyrir okkur hátt upp í orku, sem hefur í för með sér annað blóðsykurfall ... og svo framvegis.
Hvað hefur þetta að gera með athygli? Til að rjúfa mynstur daglegrar neyslu þurfum við fyrst að koma auga á hvernig það lítur út. Við þurfum að vera til staðar þegar við nærum okkur og vera í vitund gagnvart því hvað við nærum – hvort það er skortur sem leiðir til vansældar eða ást sem leiðir til velsældar.