Þetta er það erfiðasta við að lifa ekki sem vitni, að lifa ekki í innsæi. Þá ertu dómari og böðull yfir eigin lífi, gjörðum og hugsunum:
– Þú ert sem sagt sekur?
– Já, ekki spurning. Ég hef fylgst með sjálfum mér í nokkurn tíma og sönnunar-gögnin eru yfirgnæfandi. Ég er hundsekur.
– Gott og vel. Hvað er dómurinn langur? Hversu hörð er refsingin? Hversu langa fangavist erum við að tala um hérna?
– Tja, ég er nú ekki alveg búinn að ákveða það.
– Hvað með reynslulausn? Geturðu hugsað þér að sleppa þér í reynslulausn? Eða heimsókn frá sjálfum þér, fjölskyldu eða vinum um helgar?
– Ég veit það ekki alveg.
– Þú vilt sem sagt algera einangrun?
– Kannski. Ekki búinn að ákveða það.
– Sjáum til, ef þú ert lögreglan, saksóknarinn, dómarinn, fangavörðurinn og böðullinn – við hvern ættum við að ræða til að fá á hreint hversu löng refsingin er? Og í hvaða mynd hún er? –.– Sko, þegar við fáum að vita um hversu langan dóm er að ræða getum við byrjað að skoða leiðir til úrbóta ...
Við höldum okkur í spennitreyju, í fangelsi, í einangrun. Í ótakmarkaðan tíma. Fyrir óljósar sakir. Með enga möguleika á reynsulausn. Fyrir sakir sem við myndum aldrei dæma neinn annan mann fyrir.
Lífið getur ekki átt að vera svona. Því neita ég að trúa.