1) Ég borða í vitund, tek eftir matnum, finn fyrir honum í munninum og tygg hann vandlega áður en ég kyngi. Ég borða mat sem er í samhengi við náttúruna og náttúruleg ferli og er laus við aukefni, ég borða grænmeti sem hefur fengið að vaxa í friði. Ég borða mátulega skammta af mat. Ég borða jafnt og þétt yfir daginn, upplifi engar sveiflur í orku og þarf því ekki næringu rétt fyrir svefninn. Ég borða í samhengi við orkuþörf mína – ekki til að fást við tilfinningar mínar.
2) Ég borða hratt, án þess að taka eftir matnum, og tygg hann lítið. Ég borða unninn mat sem er fullur af aukefnum. Ég fæ mér oft á diskinn, borða yfir mig og finn til þreytu eftir máltíðir. Ég sveiflast í orku yfir daginn og á kvöldin líður mér eins og ég þurfi stóra máltíð og/eða kvöldnasl. Ég veit ekki hver orkuþörf mín er og mataræði mitt sveiflast því eftir tilfinningum mínum hverju sinni; eftir því hvort ég upplifi gleði, sorg, kvíða, depurð, óróleika eða leiða.
Ekki vera hissa á aukakílóum, sleni og þreytu. Horfðu í spegilinn og spyrðu þig hvort líkamlegt ástand þitt sé ekki eðlileg afleiðing af því á hverju þú nærir þig. Horfðu inn í ísskápinn og svaraðu því heiðarlega hversu stór hluti af matnum þar inni gæti talist vera heilnæmur og fullur af lifandi orku.
Raunar skiptir ekki mestu máli hvað þú borðar, heldur hvað þú borðar ekki – hvaða eiturefnum þú velur að hafna. Allt sem þú borðar ekki telur miklu meira en það sem þú borðar. Ef þú sleppir sælgæti og eyðilögðum mat og upplifir ekki vansæld í öðrum hverjum munnbita muntu gjörbylta öllu þínu lífi.
Ef þú borðar eyðilagðan mat sem er mikið unninn og fullur af aukefnum þarftu ekki að vera hissa þótt þú náir ekki hámarks árangri. Ég vil alls ekki biðja þig um að vantreysta framleiðendum og kaupmönnum, en ég vil biðja þig um að treysta þér umfram þá. Það er óhugsandi að framleiðendur séu vísvitandi að skemma
matinn og eitra hann fyrir okkur, en ekki treysta því að framleiðandinn viti þínu viti.
Ertu að stuðla að velsæld eða vansæld þegar þú opnar munninn og setur eitthvað ofan í þig?
Þú veist alltaf svarið, ef þú staldrar við í vitund, eitt augnablik.