Hér er ég – í snertingu og samtali við hjartað kemstu í vitund og samhljóm með umhverfi þínu; með umheiminum, alheiminum. Það er engin tilviljun að ég tala um söng hjartans, því að öll orðin sem eru notuð í þessari umræðu, bæði á ensku og eldri tungumálum, s.s. grísku og latínu, vísa í söng. Samhljómurinn er harmónían, alheimurinn er universum – eitt og sama vers, sami söngur, samhljómur.
Þú ert úti að aka. Aðstæður hafa verið góðar, en veðrið breytist um það leyti sem þú beygir af aðalveginum og það byrjar að rigna og dimma. Þú kveikir á háu ljósunum og heldur mátulega þétt um stýrið, beinir allri athygli að aðstæðunum og því verkefni sem fyrir þér liggur.
Þú dæmir ekki myrkrið. Þú dæmir ekki regnið. Þú dæmir ekki veginn. Þú tekur fullt tillit til aðstæðna og leggur þig fram um að leiða hjá þér allt áreiti, t.d. frá börnunum í aftursætinu.
Í stuttu máli ferðu ekki í viðnám gegn því sem þú hefur ekki stjórn á. Í stað þess að vera fjarverandi kemurðu til fulls inn í augnablikið – og þannig geturðu verið í ástandi vitnis sem tekur einfaldlega eftir öllu sem gengur á, án þess að leggja á það dóm.
Þú skilur að hvert augnablik á veginum er tækifæri til að halda beint áfram eða aka út af veginum.