Eygló Egilsdóttir er jógakennari og hefur kennt jóga á vinnustöðum frá sumrinu 2013 undir heitinu Jakkafatajóga. Hún býður upp á þá þjónustu að koma í fyrirtæki og vera með stuttar jógaæfingar í kaffitímanum. Undirritaðar sáu við hana í sjónvarpinu í nóvember á síðasta ári sem vakti áhuga á því sem hún er að gera. Okkur langaði að forvitnast meira um tildrög, skipulag og árangur af verkefninu Jakkafatajóga og ákváðum að biðja Eygló um stutt viðtal.
Smám saman hefur meiri áhersla verið lögð á heilsueflingu á vinnustöðum og stjórnendur eru margir að verða meðvitaðri um hversu góð fjárfesting í mannauði hún er. Hagur fyrirtækisins getur falist í færri veikindadögum starfsmanna, aukinni framleiðni, minni starfsmannaveltu, meiri nýsköpun og ánægðara starfsfólki. Jakkafatajóga er að okkar mati gott innlegg í heilsueflingu og heilsuvernd á vinnustöðum. Með því að bjóða upp á léttar jógaæfingar í kaffitímunum er öllum starfsmönnum fyrirtækisins gefinn kostur á þátttöku án mikillar fyrirhafnar. Eygló fléttar tímunum þannig inn í starfsdaginn að ekki þarf að gera neinar sérstakar ráðstafanir eins og taka frí frá vinnu eða skipta um föt. Einnig má ætla að jógaæfingarnar geti orðið til þess að vekja áhuga einhverra starfsmanna á aukinni hreyfingu utan vinnutíma en í því fælist mikill ávinningur.
,,Mörgum finnst erfitt að finna hálftíma á dag til að hreyfa sig. Hugmyndin er bara að gera fólki það eins auðvelt og hægt er að hugsa um heilsuna, eiginlega að gera þeim ómögulegt að hugsa ekki um hana“ segir Eygló Egilsdóttir jógakennari og hugmyndasmiðurinn á bak við Jakkafatajóga. Jakkafatajóga eru stuttir jógatímar sem Eygló kemur með á vinnustaði og eru klæðskerasniðnir að kaffitímum fyrirtækjanna.
Varð óvart jógakennari
Eygló er viðskiptafræðingur, jógakennari og einkaþjálfari að mennt. Hún hefur kennt jóga í 5 ár. Eygló vann nokkur ár í banka áður en hún lærði jógakennslu. ,,Ég fór eiginlega alveg óvart í kennaranámið og ég fór alveg óvart að kenna, ég ætlaði mér aldrei að kenna“. Samstarfskonur hennar fengu hana hins vegar til að prófa að kenna þeim og varð það úr að hún kenndi sinn fyrsta jógatímann í kjallara Landsbankans, sínum gamla vinnustað. Hugmyndin að Jakkafatajóga kviknaði út frá hennar eigin þörf þegar Eygló var ennþá að vinna í bankanum, hún stóð reglulega upp og gerði jógaæfingar til að liðka sig og fann hversu nauðsynlegt það var og hversu gott það gerði henni.
Miðast við þarfir skrifstofufólks
Síðastliðið sumar byrjaði Eygló að fara á milli vinnustaða til þess að bjóða upp á jógatíma. Tímarnir eru yfirleitt 20 mínútur að lengd og miðast sérstaklega við þarfir skrifstofufólks. Oftast kemur Eygló einu sinni í viku í einn mánuð en flest fyrirtækin framlengja og vilja fá hana áfram.
,,Æfingarnar ganga út frá því að styrkja og sérstaklega að liðka og losa um spennu. Við gerum mikið öndunar-, augn-, andlits- og jafnvægisæfingar og reynum að fara yfir öll liðamótin. Æfingarnar eru yfirleitt standandi ef það eru stólar á staðnum þá grípum við í þá fyrir hugleiðslu.“
Þarf bara gólfpláss
Eygló segist ekki þurfa neina sérstaka aðstöðu, eina sem hún þarf er gólfpláss. Yfirleitt er hún með tímana í matsal eða í kaffistofu fyrirtækjanna. ,,Það þægilega við þetta er að það þarf ekki að breyta neinu ég mæti bara og hitti fólk, fólk gerir bara eins og ég segi og svo fara allir aftur í vinnuna. Það þarf enginn að skipta um föt eða fara út úr húsi“.
Það eru bæði stór og lítil fyrirtæki sem að kaupa þessa þjónustu af Eygló, jafnt vinnustaðir sem starfsmannafélög. Það er algengt að fyrirtæki tengi jógatímana við heilsuátak á vinnustaðnum. ,,Ástæðan fyrir því að stjórnendur eru tilbúnir til að kaupa þetta er að tímarnir eru stuttir og þar með lítil röskun á vinnudegi, þeir eru að veita starfsmönnum sínum þjónustu og gera vel við þá. Starfsmennirnir upplifa að það er verið að hlúa að þörfum þeirra og veita þeim athygli.“
Æfingar sem allir ráða við
Hvernig hefur Jakkafatajóga mælst fyrir innan fyrirtækjanna?
,,Fólk er forvitið og hefur tekið vel í þetta framtak. Það er misjafnt eftir vinnustöðum hversu margir taka þátt en það er ekki þrýst á neinn að vera með. Þetta hentar báðum kynjum jafnt, konur eru oftast í meirihluta en karlarnir sem eru að mæta eru ekkert síður ánægðir.“ Eygló segist sjá að stjórnendur séu uppteknari en aðrir starfsmenn en þeir taki þó þátt þegar þeir eru á staðnum. Tímarnir eru byggðir upp á þann hátt að það er auðvelt að koma inn hvenær sem er á tímabilinu. Æfingarnar eru einfaldar og viðráðanlegar. ,,Ég vil ekki að fólk upplifi að það geti ekki framkvæmt æfingar, ég hef alltaf margar útgáfur af æfingunum, allir ættu að geta gert eitthvað. Það kom mér þó mjög á óvart hvað er hægt að gera mikið með lítið rými, stuttan tíma og skrifstofufatnað.“
Fólk reynir oft að klæða sig í ögn þægilegri föt daginn sem jógakennslan fer fram þótt það sé engin nauðsyn. Þröng mínípils eru til dæmis ekki heppilegasti klæðnaðurinn. ,,Ég segi alltaf: ég tek ekki ábyrgð á saumsprettum“ bætir Eygló við hlæjandi.
Hugleiðslan vinsæl
,,Hugleiðslan er að mælast mjög vel fyrir og gefur mjög góða raun. Ég byrja einfalt, einfaldasta formið er bara einbeiting. Þátttakendur eru þó hissa á því hvað þetta er ótrúlega erfitt“. Eygló talar um að það hafi komið sér á óvart hversu móttækilegt fólk er fyrir öndunaræfingum og það séu þær sem fólk tekur helst með sér heim. Hún segist þó lauma þessum æfingum inn með tímanum, hún vill ekki koma með of mikla hugleiðslu og öndunaræfingar strax í fyrsta tíma þar sem þær eru fólki stundum framandi. Þegar fólk er farið að finna hvað æfingarnar geta gert og treystir henni til að leiða sig áfram, bætir hún þessu smátt og smátt inn í prógrammið.
Aðspurð að því hvort hún hafi mælt árangur af Jakkafatajóga segist hún ekki hafa gert það. Hún hefur þó sent út nokkrar spurningar til fyrirtækja í því skyni að bæta þjónustuna ,,en það væri ótrúlega gott að hafa einhverjar alvöru rannsóknarniðurstöður“.
En hvers vegna ættu fyrirtæki að ýta undir hreyfingu starfsmanna sinna á vinnutíma með jógatímum?
,,Fólki líður betur og er ánægðara, ég held líka að með auknu blóðflæði aukist súrefnisflæðið og það hlýtur að þýða meiri orku. Einnig vegna alls þess sem jógað gefur okkur, meiri einbeitingu og meiri hugarró. Það má því segja að slagorð Jakkafatajóga ,,ánægja, efling, afköst“ séu einkennandi fyrir þann ávinning sem af því hlýst.
Efni eftir Ásu Sjöfn Lórensdóttir, Hildi Björnsdóttir og Hrönn Grímsdóttir