Mátturinn er þinn og þannig hefur það alltaf verið.
Við höfum misskilið lífið, misskilið vægið á milli hugans og hjartans, misskilið orkuna sem ekki sést. Mátturinn er þinn – þú þarft aðeins að mæta til fulls, að velja þig fullkomlega inn í augnablikið, því vilji er vald og máttugur er mættur maður.
Veldu að mæta í fulla birtingu sálar þinnar. Þú þarft engar áhengjur, enga hvata, engar gulrætur eða kaup kaups. Þér dugar að opna faðminn til að þiggja og opna hjarta þitt til að gefa.
Þér dugar faðmlag – því hvað er faðmlag annað en tvö hjörtu sem leggjast upp að hvort öðru? Það eru aðeins tækifæri í þessari tilvist, engin vandamál, aðeins þjáning sem stafar af viðnámi sem við höfum mátt til að stöðva.