Allt sem þú veitir athygli vex og dafnar. Þess vegna er grasið alltaf grænna hinum megin við lækinn – þú einblínir á það, hugsar um það, vökvar það og baðar í sterku sólarljósi; þig dreymir um það flókna og margþætta drauma í svefni og vöku og grasið grænkar og grænkar og grænkar.
Grasið er vel haldið – og þaðan sem þú stendur, í illa upplýstu núinu þar sem grár hversdagsleikinn býr, er græna grasið meira lokkandi en nokkuð annað í þessari tilvist.
Einn stærsti kosturinn við græna grasið er að það er ekki hér – það er annars staðar. Það er ekki núna – það er seinna. Og hér og nú er einmitt það sem fæstir vilja. Við viljum annað, því að fjarlægðin gerir fjöllin blá, dularfull og spennandi.