Ég fylgist gjarnan með ókunnugum foreldrum og börnum þeirra, svona mér til gamans. Þegar hlaupandi barn dettur og meiðir sig eru þau viðbrögð algengust að foreldrið hlaupi til í taugaveiklun, þrífi barnið upp með látum og spyrji: „Guð minn góður, meiddirðu þig ekki?“
Hvaða skilaboð sendir þessi hegðun? „Þú hlýtur að hafa meitt þig. Þú átt að fara að gráta. Þú átt að fara inn í sársaukann sem þú hlýtur að vera að upplifa.“ Eftir að hafa fylgst með börnum í fjörugum leik þar sem þau reka hausinn í leiktæki og fljúga harkalega á hausinn án þess að kveinka sér fer mann að gruna að oft séu dramatísk viðbrögð við falli tilkomin vegna skilyrðingar frá foreldrum og öðrum aðstandendum. Þessi grunsemd fæst að vissu leyti staðfest þegar maður sér barn detta, líta í kringum sig til að gá hvort mamma og pabbi voru að horfa og hvernig þau bregðast við. Þegar mamma og pabbi sýna skelfingarsvip og hlaupa til byrjar barnið að hágráta, en þegar enginn kippir sér upp við fallið stendur barnið upp, dustar mölina af buxunum og heldur áfram að leika sér. Þetta hef ég séð svo margoft að ekki þarf ég frekari vitnanna við.
Útkomuna úr svona skilyrðingu mætti kalla upphafningu sársaukans – við sköpum í börnum okkar ýktar tilfinningaverur sem fara inn í sársauka og tilfinningalegt uppnám þegar ekki er tilefni til þess.
Spegilmyndin af þessari upphafningu sársaukans er líka til og hún er alveg jafn algeng. Hana getum við kallað ógildingu sársaukans. Sú aðferð sem við þekkjum best endurspeglast í setningum á borð við „hættu þessu væli“ og jafnvel „stórir strákar gráta ekki yfir svona löguðu“ eða eitthvað í þá áttina. Staðreyndin er sú að það er mjög auðvelt að fá börn til að hætta að gráta. Til dæmis með því að beina sjónum þeirra að einhverju öðru – þetta er sérstaklega auðvelt með mjög ung börn (upp að þriggja ára aldri) og yfirleitt dugar að segja í forvitnilegum tóni „sérðu blómið?“ Með eldri börn dugar best að slá á létta strengi, kitla barnið og jafnvel fíflast svolítið.
Þetta er allt mjög skiljanlegt og sjálfur hef ég oft fallið í þessa gryfju. En þessi hegð- unarmynstur hljóta að teljast óskynsamleg. Annars vegar er ýtt undir ýkt sársaukavið- brögð barnanna og hins vegar er ýmsum krókaleiðum beitt til að stöðva grát og önnur sársaukaviðbrögð.
Börnum er oft einungis veitt almennileg athygli þegar þau meiða sig eða eru veik. Þetta eru skrýtin skilaboð sem hafa tamið marga.
Hvað með þá hugmynd að barnið fái sjálft að upplifa sinn sársauka, á sínum forsendum en ekki foreldra sinna eða annarra? Fái sjálft að læra inn á eigin líkama og hjartalag? Og fái sjálft að gráta sig í gegnum sársaukann, eins lengi og það þarf, á sínum forsendum? Af hverju eigum við svona erfitt með að hlusta á börnin okkar gráta? Grátur er viðbragð líkamans og sálarinnar. Komum við í veg fyrir að börn okkar geispi eða hnerri? Bælum við geispa og hnerra?
Sársaukinn er viðbragð sem á hvorki að ýkja né ógilda. Sá sem hefur gert það lifir alltaf í skekktum tilfinningum.
Og hér er ágætt að muna að öll vorum við sjálf börn og erum stundum enn. Þetta gildir allt um okkur líka.