Blessaður sé Descartes!
Því að hans er mannanna ríki. „Ég hugsa, þess vegna er ég,“ sagði franski spekingurinn René Descartes árið 1637 í rökleiðslu um mannlega tilvist og lagði þar með grunninn að þeirri vestrænu heimspeki sem við þekkjum einna best og ríkir í nútíma samfélögum.
Sjálfsagt hefur Descartes gengið gott eitt til, en áhrifin eru samt þau að í umfjöllun um mannlega tilvist hefur ofuráhersla verið lögð á hugsunina og hugann, umfram til- finninguna og hjartað.
Descartes lagði þannig grunninn að skortdýrinu með því að aðskilja manninn frá guði og öðrum mönnum. Þarna átti sér stað getnaður skortdýrsins, þarna fæddist það og hefur vaxið og dafnað æ síðan, enda hefur mannkynið beint sjónum sínum að hugsunum í miklum mæli undanfarnar aldir.
Og blessaður sé Descartes – fyrir að sökkva mannkyninu inn í öld hugsunar og dýrkunar á heilanum og rökleiðslum hans. Án þessa tíma gætum við ekki verið hér og nú, að fást í sífellt meira mæli við málefni hjartans. Án hans gætum við ekki skilið þann eyðileggingarmátt sem felst í þrálátum bænum hugans – í öskri skortdýrsins.
Mín útgáfa er þessi:
„Ég hugsa, þess vegna er ég ekki.“
„Ég hugsa – tek afstöðu, óttast, kvíði, efast, dæmi, veg og met, fer inn í viðhorf og viðnám – og þess vegna er ég ekki ljós og kærleikur.“ Þú ert ekki hugsanir þínar og ekki hegðun þín – þú ert orka, kærleikur, ljós. Vissulega er hægt að hugsa í vitund, en þá veistu samt fullvel að þú ert ekki hugmyndirnar eða ímyndirnar sem þú raðar saman.