Að elta síkvika gulrót
Markmiðin geta hæglega hamlað, lamað og sent mann í djúpa fjarveru frá lífinu, þegar þau eru byggð á hvata en ekki tilgangi; þegar þau lúta lögmálum þegar-veikinnar.
Markmið án tilgangs eru ávísun á tómleikatilfinninguna sem fylgir öllum verklokum – þegar öll orkan hefur farið í að klára tiltekið verkefni og því lýkur og ekkert hefur breyst. Leitinað næsta verkefni hefst strax: „Hvað á ég nú að hafa fyrir stafni?“ „Það er vandlifað,“ væri hægt að segja núna.
En ég myndi auðvitað mótmæla strax og segja að það sé auðvelt að lifa, þegar maður bara vandar til verksins og er ábyrgur fyrir sínu lífi og aðeins sínu.
Það er auðvelt að lifa þegar maður vandar sig við að lifa. Og þegar ég segi lifa þá meina ég auðvitað í fullri birtingu sjálfs sín – ekki skrimta eða þrauka með dimmi á ljósinu.
Við erum að tala um markmið sem drauma með tímamörkum. Og það er algerlega gott og blessað að setja sér markmið með tilgangi, ekki síst þegar tilgangurinn er göfugur og liggur nærri söng hjarta þíns.