Með svona sterkri sýn sem byggir á tilgangi og gildum verður til skýr mynd sem kemur í ljós og opinberast öllum heiminum. Þetta verða skilaboðin sem við sendum út í víðátturnar í fjarlægustu stjörnuþokum og inn í þrengstu fylgsni smæstu atóma.
Þessi skýra mynd sem sýnin skapar verður leiðarljós fyrir markmiðin og þar með náttúruleg og kærleiksrík umgjörð um þau; eins konar uppkast að grunnteikningu markmiðanna. Markmið eru verkfæri velsældar, en þau eru ekki tilgangur þinn.
Markmiðin eru hins vegar skýrar teikningar að framkvæmd. Markmiðin eru mælanleg, framkvæmanleg, nákvæm, trúverðug og tímasett. Aðeins þannig eru þau skýr – annars eru þau aðeins hugmyndir sem auðvelt er að leiða hjá sér og komast undan. Markmið sem eru byggð á tilgangi upplifast í augnablikinu, ekki aðeins á áfangastað, og þau næra manneskjuna og standa undir ferðalaginu.
Þú átt ekki að ná markmiðum þínum – þú átt að lifa þau og upplifa. Hamingjan liggur ekki á þeim tímapunkti sem markmiðinu er náð, og raunar er staðreyndin sú að margir upplifa sína mestu örvæntingu þegar þeir ná stórum markmiðum.