Við sköpum umgjörð um kraftaverkið, umgjörð umbreytinguna, takfasta áætlun sem virkar eins og skjólgirðing í kringum okkur á meðan við skjótum nýjum rótum. En rétt eins og plantan þarf á endanum að standa á eigin fótum, óvarin fyrir veðri og vindum, þurfum við að losa okkur við skjólvegginn og lifa til fulls.
Það er líka hægt að tapa sér í umgjörðinni og láta hana breytast í fjötra og fangelsi.
Hver er munurinn á umgjörð og fjötrum?
Umgjörðin treystir og styrkir og byggir á ást, en fjötrarnir byggja á vantrausti og efa og innan þeirra á engin sköpun sér stað. Sami munur er á leiðtoga og stjórnanda: Stjórnandinn efast og notar fjötra til að halda utan um starfsemina, en leiðtoginn treystir og styrkir starfsemina með umgjörð sem skapar frelsi og ýtir undir aðra sköpun.
Umgjörðin er kærleiksrík girðing til að styðja sig við – hún er aðferð til að þurfa ekki stöðugt að halda sér uppi á eigin krafti, hún er leið til að þurfa ekki alltaf að taka ákvarðanir, vega og meta, spyrja sig.
Lífið verður einfaldara. Og eftir svolítinn tíma í umgjörðinni gerist kraftaverkið – barnið fer að ganga. Án stuðnings.