Röddin kemur upp um leyndarmálin sem við ætlum okkur að geyma, hún getur komið okkur í vanda þegar hún dúkkar upp með réttar tilfinningar okkar eða hugsun jafnvel þegar við ætlum ef til vill að láta í ljós eitthvað allt annað,- blæbrigði raddar ljóstrar upp sannleikanum!
Þá er það tilfinning okkar og líðan sem stýrir röddinni t.d. ótti, reiði, feimni, óöryggi og erfiðar tilfinningar nú eða geislandi gleðin og öryggið!
Við ætlum okkur ef til vill að flytja texta á rólegan og yfirvegaðan máta en flytjum hann ósjálfrátt með rykkjum og skrykkjum, á allt of miklum hraða, of lágt eða jafnvel óskiljanlegan.Þá liggur þar einhver bæling að baki t.d. óöryggi, feimni, höfnun eða aðrar erfiðar tilfinningar. Sum okkar tala inná við þ.e. loka á röddina með spennu í stað þess að hún hljómi óhindrað út frá slökun. Tilfinningar okkar stjórna röddinni!
Að læra að stjórna röddinni er að miklu leiti að læra að stjórna og þekkja inn á tilfinningar sínar og líðan. Það krefst kunnáttu, einbeitingar og þjálfunar.
Röddin er ein af okkar helstu tjáningartækjum. Þó orðin séu tekin burt situr röddin eftir sem okkar helsta tjáningartæki. Við getum lesið í líðan einstaklings út frá röddinni – án málsins, orðanna sem eru stundum til þess eins að villa okkur sýn.
Öllum þykir gaman að hlusta á aðra, raða í huganum saman blæbrigðum raddar og draga ályktanir. Röddin, augnaráð, sviðbrigði ásamt hreyfingum líkamans eru okkar helstu tjáningartæki á líðan okkar og tilfinningar.
Við hlustum eftir því hvaðan röddin kemur þ.e. eru orðin sögð út frá spennu eða slökun. Öll orð breyta um merkingu við það að vera sögð frá slökun og yfir í það að vera sögð út frá spennu. Ástarorð hafa t.d.enga merkingu ef þau eru sögð frá óöryggi og spennu. Við hlustum eftir því hvaðan röddin kemur þegar einhver segir fyrirgefðu við okkur…er að marka orðið eða ekki…kemur það frá slökun frá einlægninni eða kemur fyrirgefningin frá spennu, vörn og óöryggi? Við tökum mark á fyrirgefningunni eftir því hvaðan við teljum hana vera komna.
Grein af vef baujan.is