AÐEINS EITT LÖGMÁL
Við skiljum að við getum ekki gert mistök heldur aðeins opinberað eigin heimild; að eina lögmálið sem ríkir er lögmálið um orsök og afleiðingu. Við hættum að vera feimin við þetta orsakasamhengi, og núna, ef við gerum eitthvað sem væri hægt að kalla mistök, föllum við í faðm hjartans í staðinn fyrir holu hugans. Hér höfum við öðlast nægilegan kraft til að geta ákveðið hvort við spörkum í okkur liggjandi eða hvort við hjálpum okkur á fætur eins fljótt og hægt er; hvort við viðhöldum sársaukanum þegar við meiðumst eða hvort við rífum fleyginn strax úr bakinu.
Við skiljum að skortdýrið er hluti af okkur, en við veljum í mætti okkar að hlusta ekki á kvartanir þess; við beintengjum okkur við tíðni og tengingu hjartans og sendum þannig skortdýrið í dvala.
Möntrur eða staðhæfingar sem þú hefur skapað upp á eigin spýtur henta afar vel. Mín sterkasta staðhæfing hljómar svona:
„Ég er auðugur, duglegur, heilbrigður, hamingjusamur, kærleiksríkur, þakklátur, örlátur, grannur, valdamikill, einlægur og fullkominn – og ég elska mig.“
Við munum að skortdýrið elskar athygli jafn mikið og öskrandi barn. Og stundum dugir að færa athyglina eitthvað annað – allra helst þangað þar sem ástríðan er mikil og straumurinn sterkur.