Þú lítur út eins og þú lítur út, eins og út-lit þitt er. Og hvernig líturðu út? Þú lítur út eins og þú vilt líta út – eins og þú hefur vilja til.
Straumurinn frá þér er fingrafar þess hvernig viðhorf þú geymir í sálinni.
Hvaða „útlit“ erum við að tala um? Út úr hverju erum við að líta? Hvaðan horfum við? Frá hjartanu með örlæti eða frá huganum í efa og ótta? Erum við að líta út úr sálinni þegar við lítum vel út? Byggist útlit okkar á því hvernig við lítum út úr sálinni – í kærleika eða höfnun?
Er ekki munur á útliti manns sem er bjartsýnn og þess sem er svartsýnn? Skiljum við ekki til fulls hvað þessi orð þýða?
Þetta er orðaleikur, settur fram í fullum kærleika. Hvaðan kemur fegurðin sem við greinum í öðrum manneskjum?
„Hún geislaði.“
„Það skein af honum.“
„Hún var ljómandi í kvöld.“
„Hún var með glampa í augunum.“
Við skiljum að þessar setningar hafa ekkert með húð, nef, varir eða handleggi að gera – því við vitum innst inni að allar manneskjur búa yfir ljósi sem geislar, skín, ljómar. Að líkaminn er bara hold sem er mold og að þar fyrir innan er kraftur sem er jafn sterkur og sólin, jafn heilagur og guð; kraftur sem við höfum vald yfir – þegar við höfum vaknað til vitundar og tekið ábyrgð, viljum okkur.