Hvernig lítur þín hamingja út? Hefurðu velt þessu fyrir þér? Heldurðu að það sé þess virði að þú veltir því fyrir þér hvernig hamingjan þín lítur út?
Til gamans legg ég stundum próf fyrir fólk. Ég kalla það sjálfsvorkunnar- og fjarveruprófið og það hljómar svona:
Spurning: Hvernig líður þér? Viðmælandinn svarar.
Spurning: Af hverju líður þér svona? Viðmælandinn svarar.
Síðara svarið opinberar alltaf viðhorf viðmælandans til lífsins. Við notum þriggja-putta-regluna til að greina svarið:
1) Ef hann bendir á aðrar manneskjur trúir hann því að aðrar manneskjur búi yfir valdi til að veita honum hamingju.
2) Ef hann bendir á aðstæður í lífinu trúir hann því að réttar aðstæður séu lykillinn að hamingjunni.
3) Og ef hann bendir á sjálfan sig trúir viðmælandinn því að hann þurfi að breytast til að lífið verði betra; að hann sé ekki nóg, núna, svona, til að vera hamingjusamur.
Við köllum þetta þriggja-putta-reglu vegna þess að ef þú beinir einum fingri í burtu frá þér beinirðu alltaf þremur puttum að sjálfum þér. Það eina sem ég hef gert frá því ég man eftir mér er að tala um sjálfan mig, út frá sjálfum mér. Þetta heyri ég í öðru fólki líka – það er alltaf að opinbera eigin birtingu með því að dæma aðra til að réttlæta sína eigin brotnu sjálfsmynd. Þannig þurfum við að fordæma okkur til að hafa ástæðu til að dæma aðra.
Við upplifum mesta andúð gagnvart þeim sem minna okkur á þá hluta af okkur sjálfum sem við viljum ekki horfast í augu við. Við vitum innst inni af annmörkum okkar og neikvæðum hliðum og þegar við skynjum þær í öðrum upplifum við áreiti, mikið viðnám og ögrun.
Einmitt þannig hljómar blekkingin. Við erum annað fólk – við erum allir. Samt erum við alltaf að aðgreina okkur frá öðru fólki og heiminum. Í huganum.
Við erum annað fólk, við erum allir, við erum heimurinn.
Og við erum alltaf nóg. Líka núna.
Líka núna.
Við erum alltaf nóg.
Og upphafið er alltaf hér.