AÐ VERA VITNI Í EIGIN LÍFI
Vitnið er birting sálarinnar og því er engin þörf á að beita sig ofbeldi, skömm, offorsi eða ádeilu til að hvetja sig áfram. Vitnið gengur ekki í skrokk á okkur; vitnið er fullt af trausti eins og blíð móðir sem gefur barninu rými til að detta og standa á fætur. Þegar við lifum sem vitni í vitund erum við fyrst og fremst í nánd við sjálf okkur, en þar af leiðandi við allt og alla; það skapast snerting við tilveruna og annað fólk sem verður miklu skýrari og nánari en við höfum áður kynnst. Áhrif annarra einstaklinga og heimsins á okkur verða einnig miklu sterkari – vegna þess að við finnum meira til.
Við finnum meira til okkar sjálfra.
Þetta er það sem við köllum að vera viðkvæmur og ber- skjaldaður. Að vera næmur, við-kvæmur. Hvað þýðir það orð? Við-kvæmur. Þegar við erum viðkvæm treystum við okkur til að aðrir snerti okkur, komi við okkur. Við erum snertanleg, opin fyrir þeirri snertingu sem orkan býður okkur upp á hverju sinni. Við skiljum að ef við lokum heiminn úti, af ótta við að særast, þá lokum við á sama tíma velsældina úti, lokum okkur inni og álögin eflast enn frekar.
Stundum er talað um þriðja augað og að við sjáum sannleikann í gegnum það. Það er kannski eitthvað til í því, en þriðja augað er samt aðeins milliliður. Það er með hjartanu sem við skynjum sannleikann – hjartað notar þriðja augað til að sjá, til að skynja heiminn eins og hann er, skynja heiminn án blekkingar, án afstöðu, í fullum kærleika.
Í innsæi erum við ekki dómarar heldur vitni; við erum ekki tortryggni heldur ást.