MUNURINN Á YTRI ÞÖRF OG INNRI VILJA
Leiðin að þeirri ást liggur í gegnum núið, í gegnum það að elska allt sem við erum.
Við getum ekki breytt mataræðinu í hollari átt og til frambúðar fyrr en við veljum að vera í augnablikinu, leyfa okkur að vera eins og við erum, núna, og elska okkur af öllu hjarta, eins og við erum, núna. Þegar við elskum okkur, núna, hverfur spennan sem við upplifum og allt verður auðveldara og sjálfsagðara.
Sá sem horfir á spikið sitt í spegli og hugsar: „Ég verð að gera eitthvað í þessu“ sendir sjálfum sér sterka yfirlýsingu um skort og vansæld – hann elskar sig ekki á því augnabliki og hann gengur ekki inn í lífsstílsbreytingarnar af kærleika heldur afli og jafnvel ofbeldi.
Sá sem horfir á spikið sitt í spegli og hugsar: „Ég elska mig af öllu hjarta, þrátt fyrir þessi aukakíló sem ég hef náð mér í – og mig langar að gera eitthvað í þessu“ sendir sjálfum sér yfirlýsingu um ást og sátt, rými hjartans eykst, sláttur þess eflist og líkurnar á raunverulegum breytingum aukast til muna.