Koltvísýringur er eitt mikilvægasta efni líkamans því það stýrir mörgum af efnasamböndum hans.
Koltvísýringur er nauðsynlegur fyrir alla starfsemi hjartans, æðakerfisins og öndunarfæra líkamans. Koltvísýringur gerir súrefninu kleift að vinna sitt starf af skilvirkni og í raun þurfum við meira af koltvísýringi en af súrefni. Ef við öndum of hratt, þ.e. meira en líkaminn þarfnast, þá erum við í raun að fá of lítið súrefni, í stað of mikils.
Þetta gerist vegna þess að líkaminn þarf á vissu magni koltvísýrings að halda í blóðinu svo að rauðu blóðkornin geti dreift því magni súrefnis sem við þurfum á að halda. Ef við öndum of hratt eða of mikið miðað við súrefnishæfni, þá raskast jafnvægið á milli koltvísýringsins og súrefnisins í blóðinu. Þótt við öndum að okkur meira súrefni þá erum við á sama tíma að anda frá okkur meiri koltvísýringi.
Með minni koltvísýringi minnkar geta líkamans til upptöku á súrefninu sem við öndum að okkur.
Það er ákveðið lágmark af koltvísýringi í líkamanum sem við getum ekki farið niður fyrir svo að líkamsstarfsemin raskist ekki. Þegar við förum niður fyrir lágmarkið þá eykst samspil súrefnis og rauðu blóðkornanna (sem flytur súrefnið um blóðrás líkamans.)
Með öðrum orðum: Rauðu blóðkornin sleppa ekki súrefninu sem þau flytja um blóðrásina, sem gerir frumum heilans, hjartans, lifrarinnar og annarra hluta líkamans erfitt fyrir um súrefnistöku.