Leiðin inn í frelsið er einföld og hún liggur í gegnum fyrirgefninguna. Fyrir- gefningin er gátt inn í nýja vídd þar sem þörfin fyrir eigin fjarveru minnkar og hverfur. Samt vill vefjast fyrir fólki hvað fyrirgefningin felur í sér, enda er þetta margþvælt orð og mikið notað, stundum í ólíkum skilningi.
Að fyrirgefa þýðir að taka fulla ábyrgð á því að hafa skapað tiltekið augnablik. Þú veist að þú hefur fyrirgefið þegar þú hefur enga löngun eða þörf til að refsa eða hefna þín.
Vegna þess að það er aðeins ein tilfinning – ást.
Hér þarf samt að skúra, skrúbba og bóna.
Þetta er rétti staðurinn til að hreinsa orðið ábyrgð.
Ábyrgð þýðir ekki sekt. Alls ekki.
Óvísindaleg könnun mín, í fjölmörgum samtölum við ólíka einstaklinga, hefur leitt í ljós að þessi tvö orð eru tengd miklum tryggðarböndum.
Ég segi við skjólstæðinga mína:„Ertu tilbúinn að taka ábyrgð á þessu?“
Þeir fara flestir umsvifalaust inn í skapandi heyrn og heyra:
„ÞETTA ER ÞÉR AÐ KENNA OG ÞÚ VERÐUR AÐ VIÐURKENNA ÞAÐ!!! SKAMMASTU ÞÍN!!!“
Að vera fús til að taka ábyrgð – ekki bera ábyrgð – þýðir ekki að þú eigir að stilla þér upp á gapastokknum og leyfa heiminum að dæma þig. Ég er ekki að krefja þig um að taka ábyrgð á eigin lífi til að þú getir notað fortíðina til að berja á þér í nútíðinni – til að beita ofbeldi í þágu sektarkenndar og ala á neikvæðni og sjálfsvorkunn.
Þvert á móti. Að vera ábyrgur fyrir orkunnu sinni, öndun, hugsun, orðum og gjörðum er að vera frjáls, mættur og máttugur.