Sýnum umhverfinu virðingu og atlot, bæði líkama og jörð.
Besta umhverfisráðið mitt felst í hóflegri daglegri neyslu. Öll næring er mold sem síðan verður að holdi og það sem allra mestu máli skiptir, bæði líkamann og jörðina, er magnið sem ég innbyrði. Þegar magnið minnkar þá minnkar áreitið á jarðveginn, á dýrin, á plönturnar og síðan súrefnisgæðin vegna minni mengunar.
Þetta felst meðal annars í minnkandi pakkningum, minna þvottaefni og ekki síst minni salernispappír sem allir vita að er unninn úr trjám.
Annað sem skiptir mig miklu máli er að versla helst lífrænar afurðir frá mínu nánasta umhverfi og minnka þannig áhrif persónulegrar neyslu á jarðvegs- og loftmengun vegna flutninga á lofti, landi og sjó.
Minn líkami er mín jörð og með því að umgangast hann af virðingu og sæmd stuðla ég að sömu hegðun gagnvart Móður jörð sem er uppruni alls sem ég neyti og tekur síðan við því sem ég skila af mér, því sem ekki nýtist mér, í formi úrgangs.
Þegar dagar mínir eru taldir verður mitt hold aftur að mold, jarðvegi framtíðarinnar.
Magnið er því lykilinn að velsæld, bæði fyrir líkama og jörð. Hvað fylgir þér mikill úrgangur, mengun, áreiti?