Tækifærið er að veita athyglinni athygli og vera nógu fullur af ást til að vilja grípa sig glóðvolgan.
Það er innsæi – að vera í fullri virkni þegar hjartað sér og skynjar. Að vera vitni og fylgjast með sér – ekki til að standa sig að verki og hengja sig upp til refsingar, heldur vegna þess að athyglin á sér alltaf stað í núinu og þar er ljósið og kærleikann alltaf að finna.
Þegar við höfum öðlast innsæi þá er næringin sem við veljum ekki lengur ástæða til höfnunar, hver sem hún kann að vera. Við fylgjumst með því sem við borðum í kærleika og án dóms og þá er ekkert til lengur sem heitir „svindl“. Það eina sem eftir stendur er val um eina fæðu umfram aðra; aðeins lögmálið um orsök og afleiðingu.
Og sá sem lifir í ljósinu og kærleikanum er alltaf fær um að taka afleiðingum gjörða sinna án dóms og refsingar.