Orðatiltækið „margur verður af aurum api“ styður þann málflutning sem ég ber fram á námskeiðunum og í þessum skrifum, enda eru peningar áhrifarík og uppsöfnuð orka sem hefur mikið vald í för með sér.
Það er hægur vandi að gera markvissar áætlanir með skýrum markmiðum – en hafa enga heimild til að viðhalda velsældinni sem býðst þegar markmiðunum er náð. Þeir sem leggja ofuráherslu á gróða í viðskiptum eru í sérstakri hættu hvað þetta varðar. Margir þeirra hafa áræðni, vilja og hugrekki til að hrinda af stað metnaðarfullum áætlunum, en þegar upp er staðið eiga þeir ekki inni fyrir velsældinni. Markmið þeirra byggjast á skorti, hvötum og þegar-veikinni – því að grunnurinn að græðgi er ótti og þar með skortur – og þau geta því ekki leitt til velsældar.
Sýnin getur verið ljós og framgangurinn hraður og sannfærandi, en ef ótti og skortur eru grunnurinn í markmiðum og tilgangi er engin kjölfesta í framganginum – aðeins hvati og skortur sem mun á endanum leiða til vansældar en ekki velsældar.
Ef þú leyfir ekki framgang heldur pínir hann fram er ekki nokkur leið að hann muni endast; þá skortir þig alltaf úthald, því að úthald er ekki að kreppa hnefann heldur opna hann og leyfa lífinu að fara fram í eðlilegu flæði.
Talandi um úthald: Hver er munurinn á þolinmæði og óþolinmæði? Hann er ekki svo mikill:
Með óþolinmæði þolirðu ekki mæðuna en með þolinmæði þolirðu mæðuna; lætur hana yfir þig ganga, kyngir henni.
Líf í velsæld felur enga þolinmæði í sér. Líf í velsæld inniheldur enga mæðu, enga raun – líf í velsæld er bara ljós og ást.