Mjólkurvörur eru ekki slæmar í sjálfu sér – a.m.k. ekkert meira en aðrar dýraafurðir sem eru komnar lengra frá samhengi ljóstillífunar og náttúru. En stærsti ókosturinn við mjólkurvörur er hversu mikið er búið að vinna þær, eiga við þær og slíta þær úr samhengi.
Mjólkurvörur hafa almennt verið rýrðar með gerilsneyðingu, fitusprengingu, leifturhitun og annarri vinnslu og efnafræði. Stundum er þetta gert til að vörurnar geymist lengur í hillum verslana og stundum til að neytendur vilji leggja þær sér til munns. Mjög margar mjólkurvörur – sem gætu í sjálfu sér verið nokkuð heilnæmar – innihalda litarefni, kekkefni, hleypiefni og bragðefni af fjölbreyttum toga. Mjög margar mjólkurvörur innihalda mikið magn af viðbættum sykri, reyndar svo mikið að sumar þeirra jafnast á við vænt súkkulaðistykki. Samt inniheldur mjólkin töluvert hátt hlutfall mjólkursykurs og er sæt frá náttúrunnar hendi.
Annar stór galli við mjólkurvörur er ofmagnið sem við neytum af þeim. Dæmigerður ísskápur á íslensku heimili er stútfullur af mjólkurvörum af öllu tagi – við höfum gert þær miðlægar í allri daglegri matarmenningu.
En hvað með kalkið? segja sumir.
Mjólkurvörur innihalda vissulega mikið af kalki, en samt fer fram stöðug umræða um það hversu líkaminn á erfitt með að vinna kalkið úr mjólkurvörum. Þær þjóðir heimsins sem nota mest af mjólkurvörum eru t.d. ekkert betur staddar en aðrar hvað varðar beinastyrk og kalk. Margir hafa líka bent á að ekkert annað spendýr en maðurinn neytir mjólkur eftir allra fyrsta æviskeiðið. Hvers vegna ætli það sé?
Umræða um mjólkuróþol eykst líka og sumar rannsóknir hafa haldið því fram að allt að 60% mannkyns eigi beinlínis erfitt með að melta mjólk og vinna úr henni kalk og önnur næringarefni.
Kalkneysla er einnig sett í samhengi við beinþynningu. En beinþynning hefur með hreyfingarleysi að gera, miklu frekar en skort á kalki.
Svo er kalk að finna í miklu magni í fjölmörgum öðrum fæðutegundum, t.d. sesamfræjum, sardínum, spínati, grænkáli, næpum, hnetum og fræjum.
Yfir það heila tekið mæli ég ekki gegn mjólkurvörum. En þær reynast mörgum erfiðar í maga og magnið af viðbættum sykri og aukefnum er slíkt að margar þeirra geta ekki talist heilnæmar. Þær mjólkurvörur sem ég get mælt með eru hrein jógúrt, kotasæla og lífrænar mjólkurvörur sem ekki hafa verið fitusprengdar.