Fara í efni

Náttúruleg afurð eða .. það þarf að huga að því hvaðan fæðan kemur - Guðni á Sunnudegi

Náttúruleg afurð eða .. það þarf að huga að því hvaðan fæðan kemur - Guðni á Sunnudegi

Í HVERJU FELST MUNURINN Á UNNUM SYKRI OG SYKRI SEM KEMUR BEINT ÚR FÆÐUNNI?

Hann felst í trefjunum og samhenginu – hvort um er að ræða náttúrulega afurð eða eyðilagðan mat.
Ástæðan er margþætt. Í fyrsta lagi eru trefjar algert lykilatriði fyrir skilvirka meltingu. Trefjar eru þrælar og ruslakallar meltingarinnar, draga að sér eiturefni og úrgang, hvetja meltinguna, binda vökva í hægðirnar og mýkja þær. Trefjarnar mýkja fæðuna og auka súrefnismagnið í meltingunni með því að skapa rými innan hennar.

Í öðru lagi sjá trefjarnar til þess að sykurinn, t.d. í ávöxtum og grænmeti, síast hægt og rólega út í líkamann. Maginn þarf að brjóta appelsínuna niður og komast framhjá trefjunum til að ná í þrúgusykurinn. Þannig fær líkaminn þrúgusykur jafnt og þétt og í litlum skömmtum.

Berum þetta saman við nokkuð dæmigerðan hádegismat nútímamannsins, t.d. brauðsamloku, pítsu, pasta, núðlur eða kjöt með sósu og kartöflum eða hrísgrjónum. Þetta eru allt fæðutegundir sem við erum sólgin í. Ástæðan er mjög einföld. Þær eru stútfullar af sterkjunni sem kemur úr hveiti, kartöflum og hrísgrjónum. Sú sterkja er auðmelt og hún fer hratt út í líkamann og breytist í sykur. Gallinn er sá að þetta er sterkja með litlum eða engum trefjum. Bæði kartöflur og hrísgrjón innihalda fremur lítið magn af trefjum, og hvítt hveiti hefur verið unnið svo mikið að það inniheldur engar trefjar. Auk þess er yfirleitt mikill viðbættur sykur í mörgu sem fylgir fæðutegundunum sem voru taldar upp hér að ofan, t.d. í pítsusósum, pastasósum, pakkasósum og fleiru.

Á meðan við lifum í þessum miklu orkusveiflum teljum við okkur þurfa orkubombur á borð við pítsur og pasta. Af því að við innbyrðum mat sem er ekki fullur af neista þá fáum við oftar þá tilfinningu að við þurfum mikla orku. Þar með leiðumst við í átt að orkubombum sem innihalda skyndiorku, sem aftur veldur orkuleysi síðar um daginn. Þetta er dæmigerður vítahringur.

Við erum því miklu fremur að fita okkur með sykri en fitu. Bæði sykur og unnið salt binda talsvert magn af vökva í líkamanum. Við innbyrðum miklu meira magn af kolvetnum en við þurfum á einum degi, líkaminn fer beint í að nota þessi kolvetni og breytir þeim í fitu, í stað þess að nýta þann fituforða sem við búum yfir nú þegar.

Og svo er magnið auðvitað líka umhugsunarvert. Í kringum 1940 var meðalneysla á ávaxtasykri 16–24 grömm á dag (aðallega beint úr ávöxtum og grænmeti) en í dag er hún 72 grömm á dag. Stóru stökkin í þessari neyslu fólust í því þegar stóru matvælafyrirtækin hættu að nota venjulegan sykur í vörurnar sínar (hann var orðinn svo dýr) og fóru að nota ódýrari kost, svokallað „high fructose corn syrup“* sem er unnið efni þar sem glúkósa er breytt í frúktósa til að auka sætustigið. Kornsíróp sem inniheldur hátt hlutfall af frúktósum er sú tegund sykurs sem við innbyrðum mest, ef við neytum unninna matvæla.