Í sjálfu sér er einfalt að breyta viðhorfum sínum til næringar. Þú þarft aðeins að nota almenna skynsemi og
vera í vitund þegar þú horfir inn í ísskápinn þinn eða matarskápinn og spyrð þig hvort þessar fæðutegundir séu heilnæmar eða ekki. Margt veistu nú þegar – eins og að skynsamlegt sé að sniðganga gosdrykki, franskar kartöflur með sósu, kex, snakk og sælgæti. En þú veist miklu meira en það, ef vel er að gáð. Og það sem þú veist ekki geturðu auðveldlega komist að, t.d. með því að temja þér að skoða innihaldslýsingar á matvöru.
Geturðu til dæmis borðað köku sem inniheldur sautján E-efni, hvítan og klórhreinsaðan sykur og hvítt og klórhreinsað hveiti og talið þér trú um að hún sé heilnæm fæða? Geturðu talið þér trú um að slík kaka sé einmitt það sem líkaminn þarfnast til að virka og ná hámarks árangri?
Til gamans er hérna innihaldslýsing á vinsælli köku með karamellukremi og lakkrís. Geturðu velt því fyrir þér hvaða atriði á þessum lista eru heilnæm fyrir líkamann? Geturðu velt því fyrir þér hvernig líkaminn þarf að bregðast við svona sendingu?
Innihald: Sykur, hveiti, kakó, mysuduft, repjuolía, egg, vatn, myndbreytt sterkja, bindiefni (E471, E481, E466, E412), lyftiefni (E450, E500), glúten, salt, bragðefni, ensím. Karamella: Sykur, vatn, maíssíróp, maíssterkja, invert sykur, salt, karamellulitur, glúkósi, rotvörn (E202, E281), agar, sterkja, bragðefni, bindiefni (E472e, E477), litarefni (E110, E128, E133).
Lakkrís: Sykur, hveiti, þurrkuð lakkrísrót, salt, salmíak (E510), litarefni (E153, E150c), mjólkursýra (E270), anísolía, vatn.

Næringargildi í 100 g: Orka 1753 kJ/412 Kkal, prótín 5 g, kolvetni 53 g (þar af sykur 32 g), fita 20 g (þar af mettaðar fitusýrur 3 g og þar af transfitusýrur 0 g), trefjar 2 g, natríum 392 mg.
Það eru sautján ólík E-efni í þessari einu vöru. Og auk þess myndbreytt sterkja, bragðefni, ensím, agar, litarefni og sitthvað fleira. 53% kolvetni og 20% fita.
Spyrðu þig í einlægni þessarar spurningar:
„Ef ég væri líkami minn, hvernig tæki ég á móti svona sendingu?“
Hér er innihaldslýsing á annars konar köku. Berðu þetta saman við kökuna hér að ofan:
Innihald: Möndlur, döðlur, heslihnetur, ban- anar, kókosflögur, kókosolía, kakó, spírulína, chlorella, cayenne-pipar, Himalaya-salt.
Þegar sælgæti er skoðað kemur í ljós að næringarinnihaldið er ekkert; aðeins sykur og aukefni. Þetta vitum við öll – það sem við þurfum að fara að vita betur er að margar vörutegundir sem við lítum á sem ágætlega heilnæmar eru það hreint ekki.
Hér er t.d. algeng tilbúin pakkavara:
Innihaldslýsing: Soð, rjómi, mjólk, tóm- atar, tómatþykkni, kjötkraftur, sinnep, ostur (parmesan), hvítvín, hveiti, smjör, hvítlaukur, sykur, sítrónusafi, salt, krydd, gerextrakt. Pasta (31%) (hveiti, vatn), skinka (7%), sveppir (7%), beikon (7%), rotvarnarefni (E250), bindiefni (E450), þráavarnarefni (E301).
Reglan er þessi: Ef þú kaupir mat er ásetningurinn alltaf sá að neyta hans. Við tengjum innkaupin oft við gesti og gangandi og jafnvel börnin okkar; við notum þau til að afsaka innkaup á eyðilögðum mat. Breytingin verður þegar þú lærir að versla í vitund, því bæði framleiðendur og kaupmenn þekkja veikleika þína og vita að oft ferðu í gegnum búðina eins og skortdýr.