Þeir sem eru með þráhyggju geta ekki verið í vitund. Skortdýrið hefur gleypt þá. Þráhyggja er sterkasta og öflugasta fjarveran, því að þótt maturinn sé uppáhalds fjarvera okkar allra þá er þráhyggjan sú fyrsta og öflugasta.
Hvað gerist þegar við skiljum að allt er orka? Hvað gerist þegar við lærum að stýra athygli okkar og ljósi? Það er mjög einfalt:
Við náum okkur.
Þegar við erum veik og ekki sterk þá tölum við um að ná okkur. En hvaðan náum við okkur? Og hvert? Við náum í okkur úr blekkingunni og komum með okkur í andartakið. Þar með höfum við endurheimt orkuna.
Það er það sem gerist þegar við þjálfum okkur í að beina athyglinni – við bókstaflega náum í okkur, endurheimtum okkur sjálf og vitundina um eigin tilvist.
Ég treysti því að þú sért að rumska og vakna til vitundar – fyrst þú ert að lesa þessa pistla. Takmarkið er að mæta til fulls, inn í mátt augnabliksins; að skilja að við erum orka og skilja að allt okkar líf snýst um að ráðstafa eða verja orkunni, annaðhvort til velsældar í vitund eða til vansældar óvitandi.