Ég rak úrskurðinn í hjarta þitt
oddhvassan en þannig
lokast sárið fyrr
þú munt ekki deyja sagði ég
en þú þarft að draga saman lífið
það verður reyndar auðveldara en þú heldur
svolítið eins og að minnka við sig húsnæði
mesta furða hve miklu má fleygja
án eftirsjár hvað þá afleiðinga
ég veit þó að erfiðast verður
að klippa á þá sem fyrir löngu
létu hlekkja sig við örlæti þitt
en takist það muntu sjá að þessi sjúkdómur var löngu tímabær
Ari Jóhannesson
Öll heilun hefst í hjartanu. Og þegar skugginn er horfinn sitjum við aðeins uppi með það hvernig hjartað slær.
Þar býr lífið. Þar býr núið. Þar býr örlæti – þakklátt traust.
Samhljómur hjartans við heiðarleika, sannleika, fegurð og réttlæti er eina leiðin til að öðlast frið – eina leiðin inn í ljós og líf í tilgangi.