Allt í heiminum á sér ólíka tíðni – bylgjurnar sem gefa lífið til kynna eru ólíkar, rétt eins og manneskjur bera af sér ólíkan þokka. Þetta er allt spurning um samhengi og ljós. Manneskja sem er tengd við alheiminn, sjálfa sig og náttúruna stafar frá sér jákvæðri orku – hún geislar.
Þess vegna getum við skilið – ef við viljum – muninn á hefðbundnum tómat og lífrænt ræktuðum. Annar fær að vaxa í samhengi við sitt náttúrulega umhverfi, hinn ekki. Við skiljum að á þessu er stór munur.
Öll orka kemur úr náttúrunni. Öll orka. Svo einfalt er það. Þess vegna er svo auðvelt að skilja hvers vegna dæmigerður matur er oft óheilnæmur.
Tökum hefðbundna pakkapylsu sem dæmi. Hún er búin að fara í gegnum afar flókin ferli sem færa hana sífellt lengra frá uppruna sínum, móður jörð. Kindin borðaði upprunalega gras og byggði sjálfa sig upp á því. En til að hún geti breyst í pylsu þarf hún fyrst að gerast dauð, sundurslitin, hökkuð í spað og soðin í tætlur. Það þarf að bæta í hana ótal aukefnum, bragðefnum, litarefnum og kryddum og á endanum þarf að pakka henni inn í loftþéttar umbúðir úr plasti svo hún endist í búðunum.
Enginn efast um að einhvers konar orku sé að finna í pylsum. En í flestum tilfellum er orkan afbökuð, skekkt, þungmelt, útvötnuð og henni fylgir dágóður skammtur af aukefnum.
Ég set ekki út á aðferðirnar sem fólk notar til að elda og útbúa matinn sinn. Ég dæmi engan fyrir matinn sem hann borðar. Allt á sinn tilgang, allt er eins og það á að vera og allir hafa alltaf rétt fyrir sér. En það er staðreynd að líkaminn vinnur öðruvísi úr lifandi fæðu sem er full af ensímum, trefjum og næringarefnum heldur en fæðu sem er dauð, sundurslitin og tekin úr samhengi við jörðina og lífið.
Manneskjur sem okkur líður vel með eru í jafnvægi, í samhengi og sannleika við eigin tilvist, þær eru hluti af heildinni og tengdar við heiminn, þær gefa frá sér birtu, yl og ljós í samræmi við traust og ást. Á sama hátt eiga matvæli að vera afsprengi ástar og ljóss – ekki græðgi og skorts. Við eigum að elska okkur nægilega til að öðlast heimild til að bjóða okkur aðeins upp á það allra besta – næringu sem sprettur upp úr beinu samhengi við móður jörð.