Örlæti er það allra besta – það er ljósið, lífið sjálft. Örlæti er ótakmarkað þakklæti – þakklæti sem er svo mikið að það gefur og gefur og gefur; það gefur því það treystir því að alltaf sé nóg; að aldrei sé skortur.
Í örlæti hef ég treyst mig svo mikið að ég er aftur orðinn sterkur.
Örlæti er þakklæti sem hefur tengst frjálsu hjarta; tíðni hjartans magnast upp í hámark, því engin tíðni er öflugri en tíðni örlætis.
Lokaðu augunum og hugs aðu um venjulegan dag í þínu lífi. Hvort heldurðu að þú sért frekar að telja blessanir þínar eða bölvanir? Mundu að allt sem þú veitir athygli vex og dafnar.
Hjá flestum okkar er styttra í slæmu minninguna en þá góðu; styttra í neikvæðu tilfinninguna en þá jákvæðu. Þess vegna eru flestir sem ég hef hitt uppteknari við að telja bölvanir sínar en blessanir. Þeir beina sterku ljósi athyglinnar á bölvanir sínar, þær verða fyrirferðarmeiri með hverjum deginum af öllum áburðinum, af allri umhyggjunni.
Allt sem þú veitir athygli vex og dafnar.
Það er aldrei bara ég – það er alltaf við. Við – ég, þú, hann, hún, það, allt sem sést og ekki sést. Allt er þetta sama orkan.
Þess vegna þarf ekki nema einn lesanda til að breyta heiminum. Einn lesandi sem velur að elska sig hættir að hafna sér og hættir að sparka í sig liggjandi – hann breytir orkunni í hverri einustu frumu líkamans, í öllum orkukerfum hans; hann breytir sínu ákalli til heimsins og skilaboðunum til umhverfisins; hann hefur keðjuverkandi áhrif á allan heiminn og á alla sem komast í snertingu við hann.
Það þarf aðeins einn lesanda til að breyta heiminum; einn lesanda sem framkvæmir kraftaverk með því að breyta viðhorfum sínum; einn lesanda sem er breytingin.