Hvernig fer fyrir þeim sem hafnar sjálfum sér 800 sinnum á dag?
Hann deyr. Daglega deyr hann meir og meir uns hann eyðist alveg og hverfur; fjarar út og dofnar. Manneskja sem hafnar sér mörg hundruð sinnum á dag nýtur ekki hamingju í daglegu lífi, hún er föst í vítahring neikvæðra hugsana sem kalla á neikvæða næringu og neikvæða hegðun – sem aftur kalla á meiri neikvæða hugsun og niðurrif.
Vítahringurinn heldur áfram. Sumar lifa samt sem áður langa ævi en deyja saddar lífdaga, úttaugaðar. Aðrar þróa með sér sjúkdóma snemma á lífsleiðinni þar sem orka í samdrætti og kreppu hefur sest að í líkamanum og þær deyja fyrir aldur fram af þeim sökum. Enn aðrar manneskjur tapa svo mikilli orku úr líkamanum að þær þola ekki lengur við og taka sitt eigið líf. Þegar upp er staðið – og þetta er ekki ánægjulegt að setja niður á blað – þá tökum við öll okkar eigin líf og verjum í það umtalsverðum tíma og mikilli orku. Við gerum það aðeins mishratt og með mismunandi aðferðum.
Vilt þú gera þér kleift að losna undan álögum. Ekki þess háttar álögum sem við lesum um í ævintýrum og frásögnum af svartagaldri. Þetta er umræða um öflugustu álög sem nokkur manneskja getur sett á sjálfa sig – um sjálfsálög; allt það neikvæða sem við leggjum sjálfviljug á okkur og þar með allan heiminn. Þetta er umræða um að lifa annaðhvort í sjálfstýringu, þar sem skortur og vansæld ráða ríkjum, eða í eigin mætti af fullri og kærleiksríkri ábyrgð. Að vilja sig eins og maður er, NÚNA!