Agi. Þetta er leiðinlegt orð, ekki satt? Við höfum sterkar skoðanir á því þegar aðrir beita okkur aga. Við berum óttablandna virðingu fyrir þeim einstaklingum sem okkur finnst vera agaðir – þeir hafa sjálfstjórn sem við bæði berum virðingu fyrir og öfundum. Og öfundin brýst oft út í því að við gerum lítið úr þeim sem eru agaðir með því að gefa í skyn að þeir kunni ekki að lifa – að þeir séu að neita sér um „lystisemdir lífsins“ og lifi eins konar meinlætalífi.
Þannig viðbrögð fá flestir þegar þeir kljúfa sig frá hegðun hjarðarinnar, t.d. þegar þeir ákveða að neyta ekki áfengis eða breyta mataræðinu þannig að eftir er tekið. Samfélagslegar aðstæður geta hæglega farið að titra þegar allir eru samankomnir í venjulegri samneyslu og einn klýfur sig frá hópnum með því að hafa önnur viðbrögð og sýna aðra hegðun. Þeir sem eru mættir í veislu til að drekka sig fulla eiga erfitt með að umgangast þann sem neytir ekki áfengis, ekki síst þegar sá hinn sami hefur áður tekið þátt í drykkjunni.
Sjálfur neyti ég ekki áfengis og hef upplifað þetta margoft á eigin skinni. Á tímabili fór ég reglulega í kokteilboð þar sem boðið var upp á margar tegundir af áfengum drykkjum. Þegar ég afþakkaði vínið eða bað um eitthvað óáfengt að drekka urðu margir til að hvá og spyrja:
„Hva, drekkurðu ekki?“
Lengi vel varði ég orku til að útskýra og afsaka: „Ég er með ofnæmi.“ „Ég vil vera hress á morgun.“ En svo fann ég hið fullkomna svar – svar sem var bæði sannleikanum samkvæmt og virtist slökkva á frekari fyrirspurnum um áfengisleysið:
„Hva, drekkurðu ekki?“
„Nei,“ svaraði ég, „það er hjartað.“
Þetta virkaði enn betur þegar ég lagði hönd á hjartastað og var ábúðarfullur þegar ég svaraði. Ég lét það liggja á milli hluta að sumir héldu að ég væri með hjartasjúkdóm, en svarið var sannleikanum samkvæmt: „Ég neyti ekki áfengis því að hjartað mitt vill það ekki.“