Það er ekkert að finna nema sjálfan sig. Þegar þú býrð við skort í tilvist þinni, þá ert þú skorturinn. Þegar þér finnst eitthvað vanta þá er það af því að þig vantar – þú ert ekki til staðar í eigin lífi.
Að einbeita sér að hugmyndinni um „okkur“ en ekki hugmyndinni um „mig“. Okkar hlutverk er að velja hvernig við ætlum að elska, hvernig við ætlum að hafa áhrif á umhverfi okkar.
Af hverju eru þá svona margir týndir og alltaf að leita að þessum tilgangi? Þegar þú ert að leita ertu sjálfur týndur; þá ertu ekki með þér, hér og nú, svona, eins og þú ert.
Það er spennandi að vera mættur. Þegar ég vakna til vitundar er ég máttugur og get valið að taka ábyrgð á eigin tilvist; þá er ég tilbúinn að fyrirgefa mér og leysi þar með úr læðingi það gríðarlega magn af orku sem ég hef varið í syndir gærdagsins, í sjálfsvorkunn, í gremju, í iðrun og eftirsjá, í leitina að sjálfum mér, tilganginum og hamingjunni. Þá endurheimti ég orkuna og get ráðstafað henni í núið og þann tilgang sem ég vel mér, hvernig ég ætla að verja orkunni í þessari tilvist.
Við erum aðeins orka, sál, ljós, kærleikur – hvernig við deilum henni út er stærsta verkefnið.
Því orka eyðist aldrei – hún getur aðeins umbreyst og við berum ábyrgð á þeirri orku sem við höfum til ráðstöfunar.