Þú þráir það sem þú starir á
Skortdýrið er meðvitundarlaust en gríðarlega öflugt. Þegar þú ert ekki í vitund þá ræður það ferðinni – dregur þig áfram hvert sem það vill fara, frá einni freistingu til annarrar, frá einni refsingu til annarrar.
Skortdýrið þrífst í skugga og myrkri, en ástríða þess er mikil og taumurinn sterkur. Til að viðhalda þjáningunni sem er myrkur og höfnun einblínir skortdýrið á þann skort sem er þér erfiðastur – þau svið lífsins þar sem er að finna nægilega tilfinningalega hleðslu til að þú engist um í skorti.
Skortdýrið þrífst því á van-þakklæti. Því það er ekki hægt að upplifa skort í lífinu og vera þakklátur og uppljómaður á sama tíma.
Þetta tvennt getur aldrei farið saman.
Skortdýrið veitir því oft athygli sem þú vilt ekki. Hrukkunum. Aukakílóunum. Draslinu í stofunni. Ryðinu á bílnum. Af nógu er að taka, því enginn vill vera eins og hann er.