HVER ER ÞINN ÁSETNINGUR NÆRINGAR?
Til hvers borðarðu? Til að byggja þig upp eða rífa þig niður? Til að kæfa eldinn í hjartanu eða örva hann?
Mörg lifum við kyrrsetulífi og brennum ekki miklu á venjulegum degi. Samt borðum við eins og hross, fyllum disk eftir disk af mat og hrúgum honum hratt og örugg- lega í okkur án þess að taka eftir því. (Reyndar borðum við svona hratt til þess að taka ekki eftir því hversu mikið við borðum ...).
Þú mátt borða allt sem þú vilt, hvenær sem þú vilt, í eins miklu magni og þú vilt. En ég vil hvetja þig til að koma inn í vitund gagnvart næringunni – að skilja að þú ert alltaf að næra þig í ákveðna átt, á ákveðnum for- sendum.
Og þegar þú kemur inn í vitund gagnvart því að næra þig skilurðu að þitt eina hlutverk er að taka fulla ábyrgð á allri þinni tilvist, bæði andlega og líkamlega. Þá skilurðu að þú getur ekki kvartað yfir bumbunni og bingóvöðvanum á sama tíma og þú borðar skyndibita, kex, snakk, nammi og gos. Þá skilurðu samhengið og ábyrgðina – að eitt leiðir af öðru; að þú getur ekki komist upp með að kvarta yfir líkamlegu ástandi þínu OG halda uppteknum hætti hvað varðar næringu.
Líkjum þessu við rekstur fyrirtækis. Ef þú ert illa rekið fyrirtæki með lélega vöru sem fáir vilja kaupa, er afhent seint og margir vilja skila – þá gefur augaleið að ekki verður um mikla hagsæld að ræða. Alltaf leiðir eitt af öðru.