Hefurðu séð tré í tilvistarkreppu?
Horfðu á tré og hvernig það hagar sér. Það hefur skýran tilgang – að sinna hlutverki sínu sem umbreytingareining fyrir orkuna úr sólinni, vatninu og jarðveginum. Það hefur skýran tilgang – að vaxa, dafna og geta af sér nýtt líf.
Tré hættir aðeins að vaxa þegar það fær ekki rétta næringu. Tré neitar sér ekki um næringu af því að það telur sig ekki eiga hana skilið. Tré leitar ekki að lélegri næringu til að rýra sig. Tré gerir ekki upp á milli róta, bols, greina og laufblaða – það sinnir stóru og smáu í sér af nákvæmlega sömu natni og alúð. Tréð refsar sér ekki. Tréð hafnar sér ekki.
Tré hafnar sér ekki til dauða.
Geturðu ímyndað þér tré í tilvistarkreppu? Tré sem veitir vexti sínum viðnám?
Af hverju viljum við trúa því að við lútum öðrum lögmálum en tré? Blóm? Tréð beinir athygli og ljósi að öllum sínum smæstu einingum. Tréð tekur ábyrgð á eigin tilvist. Tréð hefur skýran tilgang. Tréð er heitbundið öllum sínum stóru og smáu hlutum og leyfir öllum sviðum sínum að öðlast framgöngu.
Þótt tré geti ekki verið í tilvistarkreppu og rýrt sjálft sig þá getur það staðið í slæmum jarðvegi. Vöxtur trésins er birtingarmynd þess jarðvegs sem það stendur í. Tréð getur ekki flutt sig sjálft, en þú getur valið að flytja þig.