Á meðan glúkósi er úthaldsnæring líkamans þá eru prótín viðhaldsnæring og byggingarefni hans. Undanfarin ár hefur æ meiri áhersla verið lögð á mikla inntöku prótíns, ekki síst í formi kjötneyslu, prótíndrykkja og orkustykkja sem innihalda mikið prótín.
En hver er prótínþörf líkamans? Hún fer auðvitað eftir lífsstílnum okkar – t.d. því hvort við hreyfum okkur mikið, eftir aldri, hvort við erum að stunda líkamsrækt til að byggja okkur upp og þar fram eftir götunum. Þegar við höfum náð fullum vexti minnkar prótínþörf okkar svo um munar, svo dæmi sé tekið. Öll almenn skynsemi segir okkur að við getum fengið allt prótínið sem við þurfum úr venjulegri, heilnæmri fæðu. Og það segir landlæknir líka.*
Við borðum prótín vegna þess að þau innihalda amínósýrur, ensím og hvata. Líkaminn þarf um tuttugu amínósýrur og átta þeirra þurfum við að fá í gegnum fæðuna. Kjöt, kjúklingur, fiskur, egg og mjólk innihalda öll þessi prótín, en það er mjög flókið fyrir líkamann að brjóta þessar fæðutegundir niður og komast í amínósýrurnar.
Almennt mæli ég ekki gegn neyslu kjöts eða dýraafurða. En höfum í huga að það er flókið fyrir líkamann að vinna úr þeim nauðsynleg næringarefni. Prótín er t.d. aðeins milliliður fyrir nauðsynlegar amínósýrur, sem er miklu auðveldara að sækja úr náttúruafurðum en kjöti.
Því nær náttúrunni sem við stöndum, þeim mun betur erum við sett. Þess vegna kjósum við lambakjöt og fisk úr vötnum eða sjónum fram yfir verksmiðjuframleitt kjöt þar sem framgangurinn hefur verið píndur áfram í græðgi og ofbeldi. Öll óunnin villibráð er í beinu samhengi við náttúruna og hefur ekki verið stútfyllt af gerviefnum og hvötum.