Gildin eru hornsteinar tilgangsins. Og gætum að því að sá sem gengur til móts við myrkrið hefur alveg jafn sannan tilgang og þeir sem aðhyllast hið ljósa og fagra. Hans tilgang má ekki rengja – hann byggir aðeins á öðrum ályktunum.
Boðorðin tíu eru dæmi um sterk og skýr gildi. En jafnvel þau á ekki að taka gagnrýnislaust upp og gera að sínum. Sjálfur get ég deilt því að mín uppáhaldsgildi eru einlægni, örlæti, staðfesta, dugnaður og kærleikur.
Það kemur ítrekað í ljós hvað við höfum almennt varið litlum tíma til að skilgreina okkar eigin markmið, tilgang og sýn. Á námskeiðum mínum fer iðulega drjúgur tími í að ná utan um þessi hugtök og greina muninn á milli þeirra. Í því opinberast að það er ekki algengt að menn hafi skipulagt sína eigin tilvist, heldur frekar lifað eins og lauf í vindi.
Plató hafði mjög einfalda hugmynd um hamingjuríkt líf. Hann hafði mikla trú á áhrifamætti höfuðdyggðanna – fegurð, ást, friði, sann leika, réttlæti og jafnrétti. Hann trúði því að þessar dyggðir ættu innri samskipti og þegar maður skipulegði líf sitt út frá einni þeirra myndi allt lífið verða farsælt.