Eina fátæktin sem ég hef upplifað og orðið vitni að er vanþakklæti, þ.e. þegar manneskja telur ekki blessanir sínar. Vanþakklæti er hámark fjarverunnar, fíkill á flugi – þegar ég vil ekki vera eins og ég er, hérna, núna. Vanþakklæti er takmarkalaus frekja, háværasta öskur skortdýrsins. Sá sem telur blessanir sínar veit að hann er geisli guðs og að tíðni þakklætis er opinberun geislans. Í þakklæti byrjum við að glóa og gefa af okkur í samræmi við tilfinningar okkar en ekki aðgerðir. Við skiljum að í þakklæti er enginn skortur, aðeins ljós.
Í þakklæti löðum við að okkur á samfelldri tíðni – allar orkustöðvarnar hafa tengst og ferlið sem við unnum að í gegnum skrefin hefur orðið að einingu.
Þá blómstrum við, brosum og opnum okkur til fulls.
Örlæti er aðgerð þakklætisins – þar sem maður deilir sér til fulls. Við getum aðeins verið örlát í augnablikinu og þegar við treystum því að allt sé alltaf nóg.
Örlæti er frjóvgun. Blómin senda frá sér frævur til að deila fegurð sinni með alheiminum. Flugurnar koma til að sækja sér hunangið – lífið heldur áfram.
Í þakklæti skiljum við að allt sem við gefum þiggjum við á sama tíma; það er enginn skortur, engin eymd, ekki sjálfsvorkunn, aðeins tær útgeislun.
Þegar við gefum sendum við heiminum geislana, en geislarnir fara fyrst í gegnum okkur sjálf; við uppljómumst og heilumst.
Við erum fullkomin og fullkomlega komin í ljós.