Ég var að mestu óvinnufær í viku. Verkurinn leiddi úr bakinu niður í rasskinn, niður allan dofinn fótlegginn og út í litlutá á hægri fótlegg. Ég lagði mig strax inn hjá fólki sem ég treysti og fékkst við þessa heimsókn án þess að dæma hana, með nuddi og heilun og blómadropum. Með hjálp góðra manna og kvenna fann ég líka að heimsókn dvergsins tengdist a.m.k. þremur sviðum í mínu lífi.
Í fyrsta lagi andláti föður míns og okkar sameiginlegu forsögu, sem er auðvitað ekki lokið þótt hann sé sjálfur allur – ég sit blessunarlega uppi með að klára að vinna úr þeirri orku sem faðir minn var.
Í öðru lagi hef ég einfaldlega ekki veitt mér tíma síðustu ár til að finna fyrir þessum skilaboðum. Eitthvert svigrúm skapaðist á þessum tímapunkti þannig að líkaminn gat loksins sagt við mig: „Heyrðu Guðni, nú þarftu aðeins að snúa þér niður, liggja heima og anda rólega.“
Í þriðja lagi stend ég frammi fyrir því að fyrirtækið mitt er að stækka og þróast. Það hefur í för með sér ákveðin ferli innra með mér; ég þarf að endurskoða mitt hlutverk, treysta öðrum og svo framvegis.
En þetta var nú bara smá útúrdúr um þær ástæður sem ég taldi liggja að baki þessum verk.
Eftir nokkra daga í umönnun góðs fólks og rúmlegu heima var ég orðinn skárri en þó langt í frá góður í bakinu og fótleggnum. Ég var að koma frá sjúkranuddara þegar innsæið sá hvernig skortdýrið hafði laumað sér inn til mín. Ég heyrði sjálfan mig hugsa:
Mikið verður nú gott þegar ég verð búinn að laga þetta ...
Hvað er athugavert við þetta, gætirðu spurt? Jú, myndi ég svara, þarna er ég að hafna mér, eins og ég er, núna. Þetta er ég að segja við sjálfan mig:
Ég er ekki nóg, núna. Ég vil ekki vera svona, núna. Ég þarf að breytast.
Og það er yfirlýsing um vantraust. Höfnun á núinu, höfnun á mér. Hugurinn hafnaði mér, en hjartað brást skjótt við og hvíslaði:
„Treystu mér.“
Um leið og ég skildi þessa blekkingu sem hafði svo lymskulega laumað sér inn til mín fann ég slakna til muna á líkamanum; fann traustið streyma um allan líkamann. Það var þarna sem heilunin hófst – þegar ég sendi líkam- anum þau skilaboð að ég treysti honum til að vera eins og hann var og sjá um heilun sína.
Viðnámið hvarf, flæðið hófst, hjartað fékk rými fyrir fullan slagkraft, ljósið fékk að skína í fullu frelsi.
Það að hafna sér getur aðeins verið hugarburður – aldrei ljós eða innsæi; alltaf grimmilegur leikur skortdýrsins.
Þegar hluti af þinni tilvist kemur í heimsókn, t.d. í formi eymsla í hálsi sem þú tengir við hálsbólgu og yfirvofandi veikindi, þá áttu að fagna heimsókninni en ekki veita viðnám. Veikindin hefjast þegar þú byrjar að vorkenna þér og hafna eymslunum; þegar þú dæmir þig sjúkan.
Þegar við dæmum okkur sjúk og veik – þá hættum við að vera sterk.