Samt trúum við líka á annars konar lífsspeki, að minnsta kosti í orði: Hver er sinnar gæfu smiður.
Þessu trúi ég ekki. En þessu trúi ég:
Hver er sinnar gæfu eða ógæfu smiður.
Að allir smíði allt fyrir sig, eftir sínu höfði. Ekki aðeins gæfuna heldur allt hitt líka; allt hitt sem við verjum ævinni í að forðast að bera ábyrgð á. Meira að segja með því að lesa þessa bók ertu að smíða tilganginn þinn, hafa áhrif á hjartað og hugann; alla þína tilvist og orkuna sem þú hefur til ráðstöfunar.
Þetta kallast á við Dal dimmunnar: Hér, eins og þar, eru tvær hugmyndir sem takast á í okkur. Annars vegar hugmyndin um að aðrir eigi að sjá um okkur. Hins vegar hugmyndin um að lífið sé allt í okkar eigin höndum.
Hingað til höfum við því hvorki treyst á umsjá guðs eða á eigin sköpunarmátt og vald yfir eigin lífi. Við höfum verið svona hvorki né. Ekki alveg hérna megin og ekki alveg hinum megin. Bara á milli. Einhvers staðar. Og það er ekki góður staður til að vera á. Svolítið eins og Dalur dimmunnar. Hvorki né.
Og við hvað erum við þá svona hrædd?
Í fyrsta lagi erum við hrædd við undirliggjandi og rótgróna hugmyndina um guð. Við erum vön því að hugsa um okkur sem sandkorn í eilífðinni sem hafi ekkert vald, því að æðri máttarvöld stjórni ferðinni. Þess vegna finnst okkur óþægilegt að snúa sálminum yfir á okkur sjálf – að setja okkur sjálf í staðinn fyrir guð. Við erum hrædd við það, jafnvel þótt við teljum okkur sjálf ekki trúa á guð.
Í öðru lagi erum við hrædd við að taka lífið í okkar eigin hendur – hrædd við að taka ábyrgðina á eigin líðan, eigin framgöngu, eigin örlögum. Og hugsanlega erum við hrædd við að gerast svo sjálfhverf að við verðum hrokafull og leiðinleg.