Hefðir halda sér gjarnan ár frá ári, jafnvel í áratugi, og eru þær mismunandi en skapa notalega stemmingu og vekja upp minningar og tilfinningar sem við viljum oftast ekki vera án.
Aðrar óskir um jólamat
Úrvalið af jólamatnum hefur stóraukist undanfarin ár og hefur villibráð og kalkúnn orðið æ vinsælla. Það er ekki síst vegna þess hve margir eru farnir að spá í heilsuna allt árið um kring auk þess sem flestum líður líka betur af kjöti sem ekki er reykt og mikið saltað.
Kjötiðnaðurinn hefur reynt að bregðast við óskum um minna saltað og reykt með því að þróa vinnsluaðferðir og nota nýjar tegundir hráefnis í staðinn fyrir það hefðbundna og minnka þannig saltmagnið. Þessar vörur falla sumum vel í geð en sjálfsagt þarf lengri tíma til að slíkar vörur nái að festa sig í sessi.
Breytta val sumra snýst bæði um líðan og heilsu. Það líða varla sú jól að ekki sé tekið viðtal við lækni á Landspítalanum og hann spurður um áhrif reykta og saltaða kjötsins á landsmenn og hvort að margir hafi komið inn í slæmu ástandi eftir of mikið magn af slíkum mat. Fyrir þá sem ekki þekkja þá getur saltur matur í miklu magni valdið vökvasöfnun í líkamanum og jafnvel bjúg. Fyrir hjartasjúklinga og þá sem eru með of háan blóðþrýsting getur það valdið því að fólk þarf jafnvel að leggjast inn á sjúkrahús og fá lyf og meðferð til að losa líkamann við þennan umfram vökva. Mikil mettuð fita sem oft fylgir jólamatnum er heldur ekki af hinu góða og sér í lagi ekki með öllu saltinu og sykrinum.
Meðlæti og eftirréttir
Það er ekki aðeins kjötið sjálft sem mestu skiptir heldur meðlætið og að hafa það gott og nóg af flottu og fjölbreyttu grænmeti með sem gleður bragðlaukana og augað. Desertinn er svo kafli út af fyrir sig og setur punktinn yfir i-ið.
Vatnið má ekki gleymast
Það er ávalt mikilvægt að drekka vel af vatni en þegar saltur og reyktur matur er á borðum eins og yfir hátíðarnar, jafnvel marga daga í röð, er mikilvægi vatnsins enn meira. Það er samt oft þannig að vatnið gleymist enda annað drukkið með matnum en vanalega t.d. meira gos að ógleymdu jólaöli, malti og appelsíni. Vatnið er því ómissandi þáttur milli mála yfir hátíðarnar. Mörgum finnst ekki nógu spennandi að drekka vatn beint úr krananum allan daginn og getur virkað vel að setja nokkrar sneiðar af ávöxtum eins og appelsínu, sítrónu, jafnvel melónu í könnu, fulla af vatni sem síðan er geymd í ísskápnum. Besti mælikvarðinn á það hvort að nóg er drukkið af vökva er að fylgjast með litnum á þvaginu sem á að vera ljósleitur eins og dauflitað sítrónuvatn en ekki dökkt eins og eplasafi.
Hreyfing – nú sem aldrei fyrr
Hreyfing á hverjum degi yfir hátíðarnar hefur einnig mikið gildi við að vega upp móti allir orkuinntökunni. Hreyfing kemur kerfinu í gang og hjálpar líkamanum að halda starfsemi sinni sem mest í horfinu og losa sig við umfram vökva.
Millimáltíðir og léttara fæði
Mikilvægt er að gleyma ekki ávöxtunum og léttum mat á milli stórsteikanna. Tilvalið er að hafa fisk og skelfisk, létt smáréttahlaðborð þar sem fiskur, ferskt eða létteldað grænmeti, ávextir, hnetur og gróft brauð. Á svona hlaðborð er einnig tilvalið að nýta upp afganga af kjöti og nota það sem álegg en ekki aðalrétt.
Vinsælasti jólamaturinn
Heilsutorg lagði könnun fyrir lesendur sína á dögunum þar sem kannað var hvaða jólamatur er vinsælastur þetta árið.
Hamborgarhryggurinn er lang vinsælastur meðal þessa tæplega 380 svarenda sem tóku þátt í könnuninni en 53% velja hamborgarhrygg. Í öðru sæti er kalkúnninn með 11% svarhlutfall en skammt á hæla hans koma rjúpurnar með 8% en þær hafa sjálfsagt dottið niður í vinsældum af þeirri einföldu ástæðu að framboðið á þeim er takmarkað. Lambalærið verður fyrir valinu hjá 6% svarenda á meðan 2% borða hangikjöt. 17% velja annað en þennan hefðbundna mat og er þá líklega um að ræða nautakjöt og hreindýr þar sem aðeins 3% svarenda eru grænmetisætur. Til gamans má geta þess að hnetusteik hefur gjarnan verið vinsæll grænmetisréttur hjá þeim sem ekki borða kjöt.
Með kveðju og innilegum óskum um gleðilega hátíð og farsælt nýtt ár 2015 með góðri heilsu og gleði í hjarta.
Fríða Rún Þórðardóttir