Arna er af vestfirsku bergi brotin; mótuð af hafinu og fjallgörðunum umhverfis heimahagana, vetrarhörkum og eilífri birtu sumarsólarinnar. Iðju sína iðkar hún í fjörukantinum í Bolungarvík.
Góðar hugmyndir eiga það gjarnan sameiginlegt að hafa sprottið fram yfir rjúkandi heitum kaffibolla. Þannig var það einnig þegar hugmyndin að því að hefja framleiðslu á laktósafríum mjólkurafurðum kviknaði í kolli eins forsprakka Örnu, Hálfdáns Óskarssonar, í kjölfar umræðu innan fjölskyldunnar um slælegt framboð á ferskum vörum fyrir þá einstaklinga sem glíma við mjólkuróþol.
Á þeim tíma var framboð á slíkum vörum lítið sem ekkert , og er raunar enn. Tilkoma Örnu inn á þennan markað nú, markar því ákveðin tímamót fyrir þá einstaklinga sem vilja geta neytt ferskra afurða af því tagi sem hún hyggst framleiða. En þarna kviknaði hugmyndin, yfir samræðum og kaffibolla, og hélt síðan áfram að gerjast; þróast og mótast.
Um mitt ár 2011 hafði höfuðið á Hálfdáni fengið að liggja í bleyti í nokkurn tíma og hugmyndin var tekin að skjóta rótum og soga til sín næringu. Þó voru það utanaðkomandi þættir sem réðu því að endanleg ákvörðun var tekin um það að stefna markvisst að því að hefja vinnu við það að koma Örnu á laggirnar. Þar kom til sú ákvörðun að öll mjólkurvinnsla yrði lögð af á Ísafirði og að öll mjólk sem safnað yrði hjá vestfirskum bændum yrði flutt suður á bóginn.
Því má segja að hvatinn á bak við stofnun Örnu hafi verið tvíþættur. Annars vegar var það viljinn til þess að þjónusta markað sem hefur verið vanræktur í of langan tíma og hins vegar viljinn til þess að nýta þá mjólk sem framleidd er á Vestfjörðum til atvinnusköpunar á svæðinu sjálfu, þar sem unnið yrði að því að framleiða hágæða mjólkurafurðir til dreifingar um land allt.
Arna er lítið fyrirtæki sem starfar í tæplega 1000 manna bæjarfélagi, norðarlega á Vestfjörðum. Arna kýs þó að líta á smæð sína, og nálægð við náttúruna, sem kosti sem nýtast henni í hinu daglega striti. Náttúran gefur kraft; það veit sá sem hefur staðið og horft á sumarsólina setjast við nyrsta punkt Hornstranda eða á toppi Bolafjalls, að einn andardráttur á slíku augnabliki, nýtist manni allt árið.
Einn helsti styrkleiki Örnu liggur síðan einmitt í þeirri staðreynd að hún er smágerð. Það gerir að verkum að hún getur látið það eftir sér að hlúa vel að framleiðslu sinni, nostra við afurðirnar og ala þær á ást og hlýju. Þannig ber framleiðslan meiri keim af hefðbundinni handverksframleiðslu fyrri tíma, fremur en þeirri miklu iðnaðarframleiðslu sem er orðin eitt af einkennum okkar tíma.
Vöruflokkar sem Arna er með eru:
- Nettmjólk.
- ab-mjólk
- ab-jógúrt
- ab-skyr
- rjómi
- matarrjómi
Ef þig langar að fræðast frekar um þessar nýjur vörur þá er heimasíða Örnu HÉR.